141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Fram kom í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann hefði skilið orð mín á þann veg að ég væri að tala fyrir hönd þjóðarinnar. Ég vil leiðrétta þann misskilning, hann hefur heyrt skakkt. Ég var að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem meiri hluti þjóðarinnar sagði okkur þingmönnum að hann vildi að frumvarp til stjórnarskipunarlaga, byggt á tillögum stjórnlagaráðs, yrði haft til hliðsjónar sem grunnur að nýrri stjórnarskrá. Það var það sem ég var að vísa í. Ég ætla ekki að halda því fram að ég tali fyrir hönd þjóðarinnar. Það getur enginn þingmaður gert, ekki nema hann hafi 100% atkvæða á bak við sig og það er víst ekki hægt.

Mig langar líka að benda á nokkur atriði sem komið hafa fram í þessum umræðum og vert er að fara aðeins dýpra í. Ég spurði hv. þm. Árna Pál Árnason hvort eitthvað í þessu samkomulagi fjórflokksins tryggði að ef farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá yrði það gert samhliða sveitarstjórnarkosningum — hv. þingmaður sagði að það mundi tryggja nægjanlega þátttöku og þá yrði þessi 40% þröskuldur ekki til trafala.

Það fór ekki á þann veg að hv. þingmaður gæti svarað þessari spurningu minni en hann fór aftur á móti út í það að reyna að varpa ábyrgðinni á þessum alverstu samningum og samningatækni Íslandssögunnar yfir á aðra. Það eru víst dæmigerð stjórnmál, sem mér finnast mjög ömurleg. Útsendarar Vinstri grænna hafa síðan farið mikinn á síðu minni og annars staðar á Facebook í dag þar sem þeir halda því fram að ég beri ábyrgð á þessum þröskuldi út af því að nafn mitt var á tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals um hvernig hægt væri að breyta stjórnarskránni þannig að til væri einhvers konar varaleið. Sú tillaga er í tveimur hlutum og ég var með á henni út frá fyrri hlutanum sem fjallaði um hversu hátt hlutfall þingmanna þyrfti að vera til staðar. Mér hugnaðist alls ekki sá þröskuldur sem var þar í næstu grein, sem var hvorki meira né minna en 50%.

Eftir að hafa átt í samræðum fyrir um það bil tveim mánuðum — ég mun finna þennan samræðuþráð á Facebook þannig að fólk sem vill ekki trúa mér geti séð með eigin augum að þar tók ég opinbera ákvörðun, því að Facebook-samræður mínar eru opinberar, um að ég mundi ekki styðja þessa tillögu og þegar að því kæmi, ef einhvern tíma yrði af því að þetta mál yrði tekið til afgreiðslu á Alþingi, færi ég fram á að nafn mitt yrði tekið af því og málið yrði prentað upp að nýju, bara þannig að því sé haldið til haga. Ekki það að þetta skipti neinu stórkostlegu máli út af því að við erum ekki að fjalla um tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals hér. Við erum að fjalla um tillögu sem hv. þm. Árni Páll Árnason lagði fram og helst vildi ég að við gætum hreinlega dregið þá tillögu til baka því að í mínum huga er hún hættuleg.

Mér finnst hlutirnir svolítið stangast á í orðum hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem segir að hægt sé að komast hjá þeim gríðarlega háa þröskuldi að 40% þeirra sem greiða atkvæði í tengslum við nýja stjórnarskrá verði að segja já af öllum kosningarbærum mönnum á Íslandi — það er mjög hátt og margir sem kannski skilja ekki hversu hár þröskuldurinn er. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir málinu — hann leggur sem sagt upprunalega fram tillögu þar sem lagt er til, að beiðni hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar, að gengið verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá 17. júní 2014 á 70 ára afmæli lýðveldisins. Mér vitanlega eru ekki boðaðar sveitarstjórnarkosningar á þeim degi og ekki heldur forsetakosningar, þannig að á einhvern hátt stangast þetta á við þau orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar um að maður geti slakað á, þetta sé ekki svo slæmt úr því að hægt sé að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá samhliða sveitarstjórnarkosningum eða forsetakosningum. Það stangast á við tillöguna þannig að það er einhver innbyrðis misskilningur um leiðir út úr þessum ógöngum.

Mig langaði jafnframt aðeins að fara yfir og útskýra aðkomu mína og okkar, þingmanna Hreyfingarinnar, að samningaumræðunum. Þær umræður hafa verið mjög sérstakar. Haldnir hafa verið töluvert margir fundir með varaformönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar og þingflokksformönnum meiri hlutans ásamt okkur og þingmönnum Bjartrar framtíðar þar sem rætt var um leið til þess að beita 71. gr. þingskapa. Það var komið á þann stað að góðir möguleikar voru á því ef auðlindaákvæðið væri með. Við lögðum fram þá kröfu, þingmenn Hreyfingarinnar, að hafa með þau ákvæði sem þjóðin var sérstaklega spurð að og svaraði játandi, í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem 33 þingmenn lögðu til að farið yrði í. Þjóðin var spurð fjögurra sértækra spurninga og fimmta spurningin var um hvort leggja bæri fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaráð hefði komið fram með.

Ein spurningin var um þjóðkirkjuna, hvort hún ætti að vera áfram eins og hún er eða hvort við ættum að slíta okkur úr þeim faðmlögum. Síðan voru þrjár aðrar spurningar og auðlindaákvæðið er greinilega mikilvægt í augum þeirra sem mættu á kjörstað því að 83% þeirra sem mættu á kjörstað sögðu já. Síðan voru þarna aðrar spurningar sem lutu að beinu lýðræði og síðan því réttlætismáli og mannréttindamáli að jafnt vægi atkvæða væri hluti af stjórnkerfi okkar.

Öllum þeim spurningum sem ég taldi upp hér var svarað játandi þannig að við í Hreyfingunni töldum gríðarlega mikilvægt að þessi ákvæði — um jafnt vægi atkvæða, auðlindaákvæðið og beina lýðræðið, persónukjörið þar á meðal — væru hluti af tilraun til að beita 71. gr. Okkur tókst ekki að ná samningum um það heldur var einungis verið að ræða auðlindaákvæðið og síðan þessa tillögu frá formönnum Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar. Síðan var búið að leggja fram breytingartillögu að tilstuðlan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að hafa þröskuld sem væri 25%. Ég setti fyrirvara við það og var í samningaviðræðum um að þröskuldurinn yrði á bilinu 20–22%.

Þessir samningafundir eru í fullum gangi og margir stjórnarliðar hafa komið að máli við okkur, þingmenn Hreyfingarinnar. Fram hafa farið hausatalningar og leit út fyrir að fara ætti í þá vegferð að beita 71. gr. þingskapa. Á sama tíma eru haldnir formannafundir og á þá fundi, sem eru þá á milli fjórflokkanna svokölluðu, var fulltrúa Hreyfingarinnar ekki boðið til að ræða þinglok. Það var svolítið sérstakt, það hefur ekki gerst áður. Ég er í því hlutverki að vera þingflokksformaður og mæti þar af leiðandi bæði á þingflokksformannafundi og formannafundi og fæ síðan fréttir af því að byrjað sé að semja um mál, þinglokamál, án aðkomu minnar. Ég sagði því við þingflokksformenn meiri hlutans að ég treysti mér ekki til að mæta á fundi og hefði engan hug á neinu samráði eða samstarfi á meðan málum væri þannig háttað að verið væri að semja í ilmvatns- og rakspírafylltum herbergjum um einhverja hluti sem ég heyrði á göngunum eins og til dæmis um 40% þröskuld sem hér hefur verið útskýrður.

Ég er loks boðuð á fund í gærkvöldi um klukkan hálfátta fyrir tilstuðlan þingflokksformanns Samfylkingarinnar og forseta Alþingis. Þar er einsýnt að ekkert er hlustað á mig. Ég er ekki við samningaborðið, ég fæ að vera þarna sem skraut til að verða vitni að því að ákveðið hafi verið að hafa 40% þröskuld, að gangast við kröfum sjálfstæðismanna. Þá er líka búið að samþykkja að taka Bakkann í hraðferð þrátt fyrir varnaðarorð í tengslum við lífríki Mývatns. Það er líka búið að semja ýmis mál út af dagskrá og svolítið sérstakt að verða vitni að þessu öllu saman.

Í fyrsta skipti sem ég tók þátt í svona samningaviðræðum var það náttúrlega svolítið sérstakt fyrir manneskju sem hafði aldrei verið inni í þessum heimi og ég held að flestir þingmenn sem hafa aldrei þurft að upplifa þetta megi vera mjög þakklátir fyrir það. Þetta er frekar ömurlegt, mikil rifrildi og hurðaskellir eins og ég var sek um í gær þegar glumdi í húsinu, og mikil átök og mikil togstreita og frekar ömurlegt einhvern veginn að vera að gera þetta. Þetta er svo ólýðræðislegt, einhverjir formenn, sem oft eru í engum tengslum við þingið og það sem hefur verið að gerast þar, koma og taka bara ákvörðun um að strika allt út sem ekki er hægt að ná samningum um eða er hluti af svokölluðum hrossakaupum. Ég er mjög fegin að ég á engan hest fyrir og eftir þingstörf mín enda á ég ekkert hesthús.

Mig langaði, fyrst ég hef tækifæri til að vera hér í ræðustól, að ræða mál sem mér er hugleikið. Mig langar að minna á að við getum ekki einu sinni framfylgt þeim þjóðarvilja sem við kölluðum eftir hér á þinginu, við getum ekki einu sinni orðið ásátt um að breyta þingsköpum sem ljóst er að eru meingölluð, út af gloppum í þingsköpum og gráum svæðum, og hefur verið misbeitt; þinginu nánast haldið í gíslingu um alls konar mál. Við gátum heldur ekki sett okkur siðareglur þannig að ég ætlaði að leyfa mér að lesa hér drög að tillögu til þingsályktunar um siðareglur fyrir alþingismenn sem ég fékk send til mín 11. febrúar 2013:

„Alþingi ályktar, með vísan til 88. gr. þingskapa, að setja eftirfarandi siðareglur fyrir alþingismenn:

1. Tilgangur: Þingmennska er starf í almannaþágu. Reglum þessum er því ætlað að vera viðmið fyrir alþingismenn um það hvers konar framganga og háttsemi hæfir starfi þeirra og þeim skyldum sem þeir hafa gagnvart Alþingi og kjósendum. Jafnframt er þessum reglum ætlað að vera almenningi til upplýsingar um þá háttsemi sem hann á rétt á að búast við af alþingismanni. Reglur þessar eru til viðbótar og nánari uppfyllingar við reglur þingskapa. Reglur þessar lúta eingöngu að opinberum störfum alþingismanna en taka ekki til einkalífs þeirra.“ — Vert er að minnast þess að það er hinn illræmdi Sjálfstæðisflokkur sem stóð í vegi fyrir bæði breyttum þingsköpum og siðareglum og með dyggri aðstoð Framsóknarflokksins, gleymum ekki Framsóknarflokknum.

„2. Frumskyldur alþingismanna.“ — Ég er enn að lesa drög að siðareglum fyrir alþingismenn og það eru nákvæmlega tveir alþingismenn í salnum. Ég held að flestir hafi ekki lesið þetta, í það minnsta finnst mér mjög mikilvægt að þingmenn hlusti vel og taki þessar siðareglur inn í hjarta sitt og samvisku og siðferði. — „Alþingismaður setur hollustu við land og þjóð ofar öðrum skuldbindingum.“ — Hlustið þið vel: ofar öðrum skuldbindingum. — „Alþingismaður hefur því í störfum sínum almannaheill að leiðarljósi jafnhliða þeim skyldum sem hann hefur gagnvart kjósendum sínum. Alþingismaður hefur stjórnarskrá landsins í heiðri og gætir þess að hún sé virt. Hann virðir lög landsins og gætir þess í athöfnum sínum að hvorki brjóta né fara á svig við þau. Alþingismaður leitast öðru fremur við að bæta samfélagið með vandaðri og réttlátri lagasetningu.“ — Við skulum hafa það í huga þegar við tökum Bakka fyrir á eftir. — „Hann gætir almannahagsmuna og stendur vörð um öryggi Íslands. Alþingismaður gætir þess að skaða ekki tiltrú og traust almennings til Alþingis og þeirrar lýðræðisskipunar sem þjóðin hefur valið sér. Alþingismaður skal í öllum störfum sínum hafa virðingu fyrir Alþingi að leiðarljósi. Hann ástundar málefnalega umræðu og hefur í heiðri lýðræðisleg vinnubrögð.“ — Hér er enginn frá Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum til að heyra þessa síðustu setningu.

„3. Samskipti þingmanna og almennings: Alþingismaður skal koma fram af heiðarleika í samskiptum sínum við almenning.“ — Þetta skulum við hafa í huga þegar mér er legið á hálsi fyrir að hafa sagt frá því sem gerðist á þessum fundi í gær. — „Almenningur skal hafa greiðan aðgang að þingmanni og upplýsingum um störf hans og þingsins. Alþingismaður skal gegna störfum sínum af virðingu og auðmýkt gagnvart því hlutverki sem honum er falið sem lýðræðislega kjörnum fulltrúa alls almennings.

4. Meðferð valds og einkahagsmunir: Alþingismaður fer vel með það vald sem honum er falið og beitir því í þágu almannahagsmuna en nýtir það ekki í eigin þágu eða annarra sem honum eru tengdir. Hann forðast því allt athæfi sem líklegt er til að gefa tilefni til að ætla að hann notfæri sér stöðu sína í þágu eigin hagsmuna. Alþingismaður greinir frá því við meðferð mála á Alþingi ef mál varðar hann persónulega.“ — Þetta er svolítið mikilvægt. — „Alþingismaður gætir þess að beiting pólitísks valds eigi sér stoð í lögum og einkennist af meðalhófi, sanngirni og virðingu fyrir jafnræðissjónarmiðum. Þingmaður virðir ákvörðun meiri hluta þingsins en gætir þess að minni hlutinn njóti sannmælis. Alþingismaður kappkostar að pólitískar ákvarðanir séu vel“ — takið eftir — „undirbúnar, rökstuddar, gagnsæjar og rekjanlegar.“ — Það eru formannafundir ekki. — „Alþingismaður virðir reglur og þingsköp Alþingis.

5. Hagsmunaskráning. Alþingismaður virðir þær reglur sem gilda um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum fyrir utan þing.

6. Meðferð opinbers fjár.“ — Ég er að verða búin með tímann minn en mundi vilja tala miklu meira og lesa fyrir ykkur þessar frábæru siðareglur, þetta eru æðislegar siðareglur og ég er mjög leið yfir því að okkur hafi ekki tekist að setja okkur okkar eigin siðareglur sem eru svona góðar. Ég er líka mjög leið yfir því að við ætlum að setja þennan stórkostlega samfélagssáttmála beint í ruslið. Það hryggir mig.

Ég vona að þeir sem hafa hlustað á siðareglur alþingismanna minni alþingismenn á að þó að þær séu ekki orðnar að lögum þurfum við að setja okkur siðareglur og fara eftir þeim.