141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:23]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er sett fram leið til að halda áfram þeirri heildstæðu endurskoðun á stjórnarskrá sem hefur staðið yfir undanfarin ár og hefur verið um margt mjög lærdómsríkt ferli. Vissulega er þetta ekki sú niðurstaða sem við hefðum kosið sem lögðum fram þetta frumvarp. Hér hefur verið miðlað málum og komið til móts við sjónarmið en ég tel þetta bestu mögulegu lendingu miðað við þær aðstæður sem eru á þingi.

Ég vil líka segja að um leið stendur opin leið gildandi stjórnarskrár til að breyta stjórnarskrá þannig að sú leið sem hér er lögð til er viðbótarleið ef við viljum ljúka þessari heildarendurskoðun sem ég vil svo sannarlega gera. Ég lít á þetta sem miklu betra en ekki neitt og ég lít svo á að þessi barátta og þessi vinna haldi áfram.