141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:30]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Frú forseti. Í ræðu minni um frumvarp til stjórnarskipunarlaga í 2. umr. lýsti ég þeirri skoðun minni að breytinga væri þörf, þó ég fyndi ýmsa annmarka á frumvarpinu eins og það var lagt fram. Ég lagði enn fremur þunga áherslu á að samstöðu yrði að ná um málið. Meðferð málsins hefur því miður litast af samstöðuleysi. Það var mér fyrirséð snemma í ferli málsins að frumvarpið næði ekki fram að ganga á þessu þingi.

Í niðurlagi fyrrnefndrar ræðu minnar lýsti ég þeirri von minni að samstaða næðist um málið þó ekki væri nema um aðferð til að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing. Samstaða hefur því miður ekki náðst um það eins og ég hefði kosið, en ég styð málið á þeim forsendum að það geri það auðveldara að breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing á komandi kjörtímabili.