141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:31]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það blasir við að okkur öllum sem höfum stutt heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar eru það vonbrigði að það ferli skyldi ekki ganga til enda á þessu þingi. Það var fyrir nokkuð löngu orðið ljóst að svo yrði ekki. Auðvitað skipti þar mestu ógilding Hæstaréttar á kosningum til stjórnlagaþings sem hægði mjög verulega á ferlinu og gekk á tímabili næstum af því dauðu.

Sem betur fer tókst að endurvekja endurskoðunarferlið hér á Alþingi og sú vinna hefur tekist með miklum ágætum, unnið hefur verið vel af stjórnlagaráði, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og öllum þeim sem að málinu hafa komið. Við getum lengi rökrætt hvort það eigi að vera þátttökuþröskuldur og hver hann eigi þá að vera. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og fleiri þingmenn hafa lagt til 50%, ég held að 40% sé mun skaplegra og nær lagi. Þetta er málamiðlun þó að svo sannarlega megi færa rök fyrir því að best sé að hafa enga þátttökuþröskulda. Þessi tillaga, þessi stjórnarskrárbreyting, tryggir þó að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar heldur áfram og fer inn á næsta kjörtímabil og því styð ég þessa tillögu.