141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[21:52]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi felur fyrst og fremst í sér beinan ríkisstuðning við þá erlendu atvinnuuppbygginu sem þarna er ráðgerð, afslátt á almennum gjöldum sem fyrirtæki og atvinnurekstur í landinu verða að greiða almennt hvað varðar t.d. tekjuskatt, stimpilgjöld, afslátt á fasteignagjöldum, undanþágu af tryggingagjaldi og frávik frá sköttum og gjöldum í allmörg ár.

Mér finnst alveg fráleitt að samþykkja frumvarp með þeim gríðarlegu ríkisívilnunum fyrir utan umhverfisáhættuna sem er verið að taka. Ég verð að segja það frá hjarta mínu að mér finnst dapurt ef þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru flutningsmenn að slíku frumvarpi. (Gripið fram í.)