141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur fært þau rök fyrir skattalækkunum og gjaldaaffellingu í þessu máli að hér sé um að ræða kalt landsvæði og því þurfi alveg sérstakt átak til.

Virðulegi forseti. Þannig háttar til á Íslandi að atvinnuvegafjárfestingin, sem er svo gríðarlega mikilvæg, hefur ekki náð sér á strik og það bendir ýmislegt til þess og hefur komið fram í Hagtölum og í öðrum rannsóknum að á þessu ári muni jafnvel draga úr fjárfestingu atvinnulífsins á Íslandi. Virðulegi forseti, það má því halda því fram, ef menn halda sig við myndlíkingu hæstv. ráðherra, að Ísland sé kalt land. Ágætt er með þessa ríkisstjórn að þegar hún sest niður og skoðar eitt afmarkað mál sér hún að til þess að fjárfestingin fari af stað þarf að lækka gjöld og álögur.

Ég get tekið undir með hæstv. umhverfisráðherra að nokkuð mikið af fjármunum rennur úr ríkissjóði í þetta mál. Sökum þess að málið stendur þannig af sér að það hefur þó í för með sér atvinnuuppbyggingu og fjárfestingu í landi þar sem allt er frosið, (Forseti hringir.) í landi þar sem allt er kalt, mun ég segja já við að þetta frumvarp verði að lögum vegna þess að (Forseti hringir.) ekkert er mikilvægara í samfélagi okkar núna en að koma fjárfestingu af stað.