141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Ég vil minna hv. þingmenn á það að ástæðulaust er að hafa mörg hávær húrrahróp fyrr en við erum búin að sjá árangur af þeim aðgerðum sem hér á að grípa til. Það er langur vegur í að framkvæmdir hefjist en vissulega er ástæða til þess að fagna því að fjögurra ára gömul fyrirheit í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um að ryðja úr vegi öllum hindrunum fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar eru loksins að rætast. Klárt mál er að hér er kallað eftir því að kjördæmi tækifæranna, Norðausturkjördæmi, geti lagt gott til þjóðarbúskaparins. Við í Norðausturkjördæmi gerum það með heilum hug og erum stolt af því að leggja gott til þjóðarframleiðslunnar og vaxtar hennar.

Menn finna sér í þessum umræðum yfirleitt margt til afsökunar til þess að forðast að þurfa að taka ákvörðun. Ég get ekki látið hjá líða að nefna að einhver aumasta afsökunin sem ég hef heyrt kom hér í kvöld frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni sem hafði þær mestar athugasemdir við áformin að orka væri nýtt til staðbundinnar uppbyggingar. Hvernig getur öðruvísi verið háttað til en að orka sé (Forseti hringir.) nýtt til staðbundinnar uppbyggingar?