141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[22:06]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefði getað verið ánægjuleg stund nú á síðustu mínútum kjörtímabilsins við að veita uppbyggingu í efnahagslífinu brautargengi með samþykkt laga sem hvetja til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Það gerir þessa stund að vísu ánægjulega að ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenna með frumvarpinu um kísilver á Bakka að skattstefna þeirra sjálfra, sem þeir hafa ekki hikað við að bjóða almenningi, einstaklingum og fyrirtækjum, er dragbítur á uppbyggingu í atvinnulífi og endurreisn efnahagslífsins.

Með frumvarpi þessu er einu fyrirtæki gefinn verulegur afsláttur af öllum þeim sköttum sem ríkisstjórnin kaus að hækka á þessu kjörtímabili að ógleymdum sköttunum sem ríkisstjórnin fann upp í nafni umhverfisverndar. Norðan heiða verða ekki innheimtir neinir mengunarskattar.

Ég fagna alltaf skattalækkunum, hvaðan sem þær koma, en þetta frumvarp felur ekki í sér skattalækkun og það hefur ekki í för með sér almenna uppbyggingu í atvinnulífinu. (Forseti hringir.) Þvert á móti eru sértækar undanþágur sem þessar til þess fallnar að festa í sessi rangláta og óarðbæra skattstefnu. Þetta verkefni fær mínar hugheilu óskir um gæfu og árangur fyrir alla þjóðina en eins og málið er lagt upp, (Forseti hringir.) sem sértæk ívilnun og bein ríkisaðstoð, fær það ekki atkvæði mitt.