141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

633. mál
[22:10]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í sjálfu sér er erfitt að vera á móti uppbyggingu á samgöngumannvirkjum en það sem hér er verið að leggja til er að ríkið ráðist í sérstaka stækkun hafnar í Húsavík og vegtengingar í tengslum við stóriðjuáform sem þar eru. Þetta eru samgöngumannvirki sem eru á vegáætlun en ekki á samgönguáætlun. Þarna er aftur verið að taka stór samgöngumannvirki út úr þeirri samgönguáætlun sem Alþingi almennt samþykkir fyrir þessar framkvæmdir í landinu.

Hvað mega Vestfirðingar segja? Hvað mega þeir sem bíða eftir stórum samgöngumannvirkjum segja þegar í annað skipti eru tekin út úr samgöngu- og vegáætlun og hafnaráætlun stór verkefni sem í þessu tilviki eru hluti af stóriðjuuppbyggingu þarna?

Mér finnast þetta forkastanleg vinnubrögð gagnvart Alþingi.