141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að málið er að komast á þennan rekspöl. Ég setti mig vel inn í það eftir því sem ég gat á sínum tíma þegar áform voru til skoðunar um það hvernig væri best leyst úr húsnæðismálum Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég sannfærðist um að það væri rétt ákvörðun að byggja á þeim stað sem hér stendur til og ég sannfærðist líka um að sá valkostur væri ekki í boði að leggja ekki upp framtíðarúrlausn í þessum málum. Við ætlum okkur að hafa gott, vel búið móðursjúkrahús sem kjarnann í heilbrigðisþjónustu okkar og við eigum ekki annan valkost en að takast á við að endurnýja húsakost Landspítala – háskólasjúkrahúss.

Ég fagna því einnig að hér er lagt til að sjálf aðalbyggingin færist yfir í opinbera framkvæmd. Ég tel að það sé rétt mat á aðstæðum og lýsi eindregnum stuðningi við að þessum áformum verði fram haldið.