141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Landspítalinn þarf góðan húsakost. Ég held að allir séu sammála um það. Við þurfum að taka þá umræðu og taka hana heildstætt. Ég var stuðningsmaður þess að fara í byggingu nýs spítala þegar ég taldi okkur hafa efni á því, þegar við áttum peninga í sjóði fyrir þeirri framkvæmd. Nú eigum við ekki þann pening og við þurfum að taka hann að láni. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að það væri dýrt að vera fátækur, það er ákveðinn sannleikur fólginn í því. Það hafa starfsmenn og notendur heilbrigðisþjónustu víða um land fundið allt of mikið á eigin skinni á síðustu missirum.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal um að það séu misvísandi skilaboð fólgin í því frumvarpi sem hér liggur til grundvallar. Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins ítrekar að ekki sé verið að skuldbinda ríkissjóð, en hér kemur hver þingmaðurinn á fætur öðrum og (Forseti hringir.) fagnar þessu stóra skrefi. Hvort er rétt, virðulegi forseti? Á meðan það liggur ekki fyrir treysti ég mér ekki til að styðja þetta mál.