141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki orða bundist að heyra í hv. þingmönnum koma hver á fætur öðrum og lýsa því yfir að nú sé verið að hefja byggingu á nýjum Landspítala. Frumvarpið sem hér liggur fyrir og er verið að fara að greiða atkvæði um er í raun og veru sáraeinfalt; það er verið að breyta því hvernig fjármögnun verður háttað. Það er ekki verið að taka neina ákvörðun. Við erum engu nær því að byrja byggingu á nýjum Landspítala. Það er því hreinn og klár blekkingarleikur sem við höfum orðið vitni að hér hjá mörgum þingmönnum sem halda því fram að hér sé fyrir tilstilli ríkisstjórnarinnar verið að fara að byggja nýjan Landspítala. Ég gat ekki orða bundist og varð að koma upp og benda á þá staðreyndavillu sem hér er verið að halda fram. (Gripið fram í.)