141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.

605. mál
[22:46]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fagna gildistöku eða lögtöku þessa frumvarps. Hér er eitt af fjölmörgum málum sem orðið hafa að lögum á kjörtímabilinu sem snúa að því að gera samgöngurnar grænni og umhverfisvænni og stuðla að orkuskiptum í samgöngum og almennt í okkar búskap. Það má nefna þar upptöku losunaraðferða við skattlagningu umferðarinnar, bifreiðagjöld og annað því um líkt, kolefnisgjöld, ívilnanir vegna vistvænna orkugjafa o.s.frv. Ég fagna því að atvinnuveganefnd kaus að ganga heldur ákveðnar fram ef eitthvað var en í frumvarpinu sjálfu. Ég tel okkur ekkert að vanbúnaði og ekki seinna vænna að við höldum inn í nútímann í þessum efnum eins og flestöll nálæg lönd hafa þegar gert á undan okkur.