141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég greiði hér atkvæði um mikilvægt mál, en ríkisstjórnin hefur allt þetta kjörtímabil verið í glímu við lífeyrissjóðina um að færa þeim sem eru með svokölluð lánsveð sömu úrræði og þeim sem ekki eru með slík veð. Það hefur reynst þrautin þyngri. Við erum engu að síður ekki hætt. Ég og þessi ríkisstjórn munum berjast fram á okkar síðasta dag fyrir réttarbótum og varanlegum úrbótum fyrir þennan hóp. En þangað til finnst okkur mikilvægt að nýta það tækifæri og það svigrúm sem skapast á fjárlagalið vaxtabótanna til að færa honum auknar vaxtabætur vegna ársins 2012. Það skiptir máli vegna þess að þessi hópur er með hærri og þyngri greiðslubyrði vegna þess að hann hefur ekki getað nýtt sér sömu úrræði og aðrir lánþegar í landinu. Þess vegna, frú forseti, er mikilvægt að um þetta ríki samstaða þannig að við getum mætt þessum hópi sem þarf svo sannarlega á þessum fjármunum að halda.