141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[22:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stutt þetta mál. Þetta er enn einn plásturinn frá stjórnvöldum, en þannig hefur aðferðafræði stjórnvalda verið við að taka á skuldavanda heimilanna. Eins og kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra er þetta ekki varanleg lausn á vanda þeirra sem eru með lánsveð heldur einskiptisaðgerð sem mun hugsanlega hjálpa ungum barnafjölskyldum að kaupa barnavagn eða bleiu í staðinn fyrir að taka á vanda þeirra á varanlegan máta.

Ég vil líka fá að nota tækifærið og lýsa yfir miklum áhyggjum okkar framsóknarmanna á því að hæstv. fjármálaráðherra sé mögulega komin langt fram úr sér hvað varðar hugsanlega samninga við kröfuhafa vegna uppgjörs föllnu bankanna. Árangurinn af þeim samningaviðræðum sem stjórnvöld hafa staðið í á kjörtímabilinu hefur ekki verið mikill og hér þurfa menn að gæta sín.