141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég ætla að reyna að hafa ræðuna sem stysta en einhver hlýtur hún að verða því að ég þarf að mæla fyrir breytingartillögu frá mér og Ólafi Þór Gunnarssyni. Ég á að teljast framsögumaður málsins en hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson er formaður umhverfisnefndar og við flytjum þessa breytingartillögu saman. Að megninu til er hún flutt sem framhald af eða líkamningur samkomulags sem hér var gert í dag, tók nú nokkurn tíma, til að auðvelda afgreiðslu þessa máls við þinglok.

Ég ætla að fara fljótt yfir sögu. Menn hafa tillöguna fyrir framan sig en fyrsta atriðið sem hún tekur á er gildistími laganna. Í frumvarpi því sem hér er til meðferðar er gildistíminn lagður til 1. júlí á þessu ári. Í raun og veru væri miðað við afgreiðslutímann eðlilegt að hafa hann 1. janúar, um áramótin. En til að auðvelda samkomulag hefur verið bætt við þremur mánuðum þannig að gildistíminn yrði 1. apríl 2014, hæfilegur til þess að ef næsta þing vill gera breytingar á þessum lögum hefur það sæmilegan tíma til þess, en nógu knappur til að leggja yrði það mál fram nokkuð snemma og ræða það fullkomlega fyrir opnum tjöldum en ekki í skjóli nætur eins og stundum gerist við þinglok.

Í öðru lagi er kaflinn um utanvegaakstur. Honum er háttað þannig að verði þetta samþykkt verður hafin full vinna við þann kortagrunn sem þar er tiltekinn. Þegar kortagrunnurinn er tilbúinn er hins vegar gert ráð fyrir að ráðherra og Alþingi taki nýja ákvörðun um lagaramma sem þetta mál varðar með tilteknum hætti sem kann að virðast nokkuð kyndugur þeim sem ekki þekkja til í dularheimum íslenskra stjórnmála og má um það segja að margt er skrýtið í kýrhausnum.

Í þriðja lagi, það er hluti af samkomulaginu en einnig í rauninni frumkvæði flutningsmanna að ákveðnu leyti, er viðbót við ákvæði til bráðabirgða sem fjallar um það hvað gerist á milli gildistöku laganna og síðan þess að kortagrunnur er fram lagður. Þar er tiltekið að þrátt fyrir bannið við utanvegaakstri sem er við öllum akstri utan eiginlegra vega geti menn ekið þá slóða sem eknir eru að staðaldri og greinilegir eru. Þetta verður óbreytt en við það verður bætt því ákvæði að einnig sé heimil för á fáfarnari vegslóðum þar sem hefð er fyrir akstri og slóðarnir falla að skilyrðum 2. mgr. 32. gr.

Ég held að ástæða sé til að lesa upp hver þessi skilyrði eru. Í 2. mgr. 32. gr. eru tiltekin þau viðmið sem á að hafa við að velja vegslóða og þegar vegslóðarnir eru valdir í kortagrunni skal sérstaklega líta til þess og les ég upp úr þessari málsgrein, með leyfi forseta, „hvort akstur á þeim sé líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda uppblæstri, hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll. Einnig má líta til þess hvort um greinilegan og varanlegan vegslóða sé að ræða og hvort löng hefð sé fyrir akstri á honum.“

Hér er gert ráð fyrir því annars vegar að menn geti farið á hina staðaldursförnu greinilegu vegslóða en menn geti einnig farið þá vegslóða, þótt fáfarnari séu, sem nokkur hefð er fyrir og uppfylla þau viðmið sem um er að ræða. Að auki er tryggt með skýrari hætti en var áður í frumvarpinu og breytingunum að útivist, bæði útivistarmenn og náttúruunnendur, eigi sæti í þeim starfshópum sem settir verða á stofn til þess að velja slóðana í kortagrunninn.

Enn fremur er breytt því sem var verið að samþykkja um heimild fatlaðra. Kvartað var yfir því orðalagi að í frumvarpinu eins og það er nú mætti lesa það þannig að fatlaðir eigi undir Umhverfisstofnun að sækja sinn rétt til tilhliðrunar en hér er gert ráð fyrir að því verði beint til ráðherra. Og eitthvað var hér í viðbót, hvað var það? Já, nú man ég það ekki og þar með skiptir það kannski ekki miklu máli.

Ég vil enn fremur minnast á það sem ekki er í breytingartillögunum og við fjölluðum nokkuð um en komumst ekki að niðurstöðu í, ég vona að það geti gerst síðar, en það er um tilraunadýr sem menn þekkja er þekkja málið. Ég vil um það segja að við tillöguflytjendur og nefndarmenn allir leggjum áherslu á að um tilraunadýrin vinni Umhverfisstofnun og Matvælastofnun þannig saman að það verði rannsakendum sem minnst erfiði að halda áfram rannsóknum sínum þar sem til þarf tilraunadýr.

Að lokum þessarar stuttu ræðu vil ég þakka nefndarmönnum sem ég vann með og öllum þeim sem komu að málinu, sem voru fjölmargir, og formanninum sem ég hef átt ákaflega gott samstarf við, hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, sem meðal annars tók við störfum mínum sem framsögumaður í 2. umr. og þó ekki síst hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, sem á heiður skilinn fyrir að hafa undirbúið frumvarpið með þeim hætti sem raun ber vitni. Ég held að af mörgum góðum verkum hennar í ráðherraembættinu sé þetta eiginlega kórónan. Ég þakka Svandísi Svavarsdóttur fyrir.