141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst koma því að við umræðuna að þær breytingartillögur sem hv. þingmenn Mörður Árnason og Ólafur Þór Gunnarsson leggja fram í dag við 3. umr. málsins eru mjög mikilvægar til þess að greiða fyrir framgangi málsins sem eins og fram kom fyrr í dag hefur verið mjög umdeilt, margir þættir þess mjög umdeildir. Ég vil eins og hv. framsögumaður málsins þakka öllum sem að lausn þess hafa komið, nefndarmönnum bæði úr meiri hluta og minni hluta, ráðherra og öðrum sem lögðu sitt af mörkum í þeim efnum. Vissulega voru margir hnútar á málinu sem þurfti að greiða úr en á endanum fannst lausn sem enginn er kannski alveg sáttur við en margir geta unað við og er það nokkurs virði.

Það sem felst í þeirri lausn er raunverulega það að frumvarpið kemst til afgreiðslu og kemur til afgreiðslu í heild en gildistöku þess er frestað um nokkra mánuði sem, eins og kom fram hjá hv. framsögumanni málsins, gefur þá ráðrúm annars vegar til þess að nýr meiri hluti á þingi sem hugsanlega tekur við eftir kosningar geti gert einhverjar breytingar ef svo verkast eða þá að undirbúa framkvæmd laganna að öðru leyti. Hér er í raun og veru verið að vinna ákveðinn tíma sem getur nýst til þess að finna (Forseti hringir.) varanlega lausn á ýmsum þeim álitamálum sem helst hafa verið uppi í málinu.