141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:45]
Horfa

Róbert Marshall (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á milli Strútsskála á Mælifellssandi að Fjallabaki og Strútslaugar, sem er um það bil 45 mínútna langur gangur fyrir frískan mann, er jeppaslóði. Það er búið að loka fyrir hann Strútsskálamegin en engu að síður er hefð fyrir því að fara hann. Hann er fáfarinn og því spyr ég hv. þingmann hvort nokkrum jeppamanni sé eitthvað vanbúnaði að nota sér þá grein til þess að hefja akstur um leiðina að nýju.

Veit hv. þingmaður til þess að greinin loki fyrir þann möguleika? Er hv. þingmaður nægilega viss í sinni sök um að ekki sé verið að opna á möguleikann fyrir fjölda manna til að ákveða sjálfir hvaða slóða þeir vilja og geta ekið á hálendi Íslands í viðkvæmri náttúru? Ég vek máls á því og vara við því að á lokametrunum, á síðustu klukkutímunum, sé komið inn með orðalag um það mikilsverða málefni sem hefur ekki verið fjallað um í nefndinni og engir sérfræðingar hafa veitt umsögn um. Ég er að reyna að vara við því að sú leið sé farin. Líður hv. þingmanni vel með þau vinnubrögð? Finnst honum eðlilegt að fara svona fram í málaflokknum? Það er mín spurning þar sem ég treysti því mjög illa. Mér finnst mjög óvarlega farið.