141. löggjafarþing — 113. fundur,  27. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[23:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Kannski er komið nóg en það er alveg rétt hjá Róberti Marshall að ég þekki ekki til þessara sérstöku slóða. Sá bíll sem ég ek að jafnaði heitir Daewoo Lanos og er frá árinu 2000 og er þannig í laginu að hann verður helst keyrður hér í bænum, að minnsta kosti ekki mikið út fyrir hið viðurkennda vegakerfi og hefur ekki verið settur í það. Ég er útivistarmaður á minn hátt og þykir það gott. Ég þykist þó þekkja þannig til í gegnum vinnuna og í gegnum kynni af útivistarmönnum, sem eru með öðrum hætti, að ég geti haft yfirsýn yfir hvernig þau mál eru.

Ég segi aftur að ef maður ekur slóða þar sem akstur er ekki líklegur til að raska viðkvæmum gróðri, valda uppblæstri, hafa neikvæð áhrif á landslag og ásýnd lands eða hafa að öðru leyti í för með sér náttúruspjöll þá tel ég það í góðu lagi þangað til kominn er sá kortagrunnur og þau réttaráhrif sem af honum leiða sem frumvarpið gerir ráð fyrir.