141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[00:10]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Er ég lít til baka yfir þau fjögur ár sem forusta VG hefur átt aðild að ríkisstjórn blasir við mér sviðin jörð brigða við stefnu og hugsjónir VG og loforð sem við gáfum fyrir síðustu kosningabaráttu 2009. Stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í efnahagsmálum hefur einarðlega verið fylgt eftir, stefnu sem var mótuð á haustmánuðum árið 2008 gegn sterkum andmælum VG. Sótt var um aðild að Evrópusambandinu með skilgetnu afkvæmi þess, Icesave, einnig gegn stefnu VG sem kom svo skýrt og berlega og harkalega fram í umræðum um það mál á haustdögum haustið 2008. Það voru settir 11,5 milljarðar í Sjóvá – Almennar til að bjarga því fyrirtæki, 11,5 milljarðar sem betur hefði verið varið í heimilin, heilsugæslu, sjúkrastofnanir, löggæslu og grunnstoðir okkar.

Bankakerfið var endurreist með víkjandi lánum þannig að ríkissjóður hefur ekki tök á því sem hluthafi að hafa áhrif á það hvernig vogunarsjóðirnir fara með þá banka í framtíðinni. Skúffufyrirtækið Magma komst upp með að kaupa auðlindir okkar á Reykjanesi fyrir slikk. Þar nýtti ríkisstjórnin ekki forkaupsrétt. Kostnaðurinn hefði verið u.þ.b. 5 milljarðar fyrir ríkisstjórn að tryggja sér þau réttindi.

Það er af mörgu fleiru að taka í þessum efnum sem ég ætla ekki að orðlengja um í ræðu minni. En síðasti nagli forustu VG í líkkistu og stefnu hugsjóna flokksins er rekinn með því máli sem hér er til umfjöllunar. Fjárfestingarsamningurinn sem hér er verið að gera er í fullkomnum stíl við fjárfestingarsamninga við Alcoa og Verne Holdings, reyndar var það samningur sem var gerður afturreka af Eftirlitsstofnun Evrópu, ESA, og aðra samninga sem við gagnrýndum svo harkalega. Maður spyr sjálfan sig að því hvers íslensk stóriðja eigi að gjalda, þ.e. íslenskur sjávarútvegur, íslenskur landbúnaður, íslensk ferðaþjónusta, íslenskur iðnaður og svo mætti lengi telja.

Af hverju er íslenskum fyrirtækjum mismunað? Þar nefni ég eingöngu tryggingagjaldið. Af hverju er íslenskri stóriðju mismunað en erlendri stóriðju hampað? Þetta snýst um peninga og mismunun, en sýnu alvarlegra er að nýta á orku til Bakka frá virkjun í Bjarnarflagi við Mývatn, virkjun sem stefnir Mývatni og lífríki Mývatns í stórhættu. Teikn eru þegar á lofti um það. Þetta er tilraunastarfsemi þar sem náttúran nýtur ekki vafans, tilraunastarfsemi sem orkuveita Reykjavíkur hefur lagt af á Hellisheiði þar til rannsóknir liggja fyrir til að ráða bót á þeim ágöllum sem hafa komið fram á Hellisheiði við orkuvinnslu og allir þekkja sem búa hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og fyrir austan fjall. Brennisteinsmengun, manngerðir jarðskjálftar og þar fram eftir götunum.

Maður spyr sig óhjákvæmilega þegar þetta mál er á dagskrá og manni verður hugsað til Mývatns: Höfum við ekkert lært af Kárahnjúkavirkjun, þeim stórkostlegu umhverfislegu afleiðingum sem þar hafa komið fram? Það er svo sannarlega víti til varnaðar. Ég læt nægja að nefna að lífríki Lagarfljóts hefur verið varanlega spillt. Eigum við ekki að læra af því? Eigum við að taka áhættu í umhverfismálum? Eigum við að taka áhættu á kostnað náttúrunnar? Af hverju má hún ekki njóta vafans? Það er tekin sama áhætta með gufuaflsvirkjun í Bjarnarflagi á kostnað Mývatns og lífríki þess.

Ég held, ágætu þingmenn, að við þurfum regnboga fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun.