141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[00:21]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég tilheyri þeim hópi manna og kvenna sem vöruðu við því sem við erum að sjá að hefur gerst með Lagarfljót. (TÞH: Hvað er það?) Er hv. þingmaður ekki meðvitaður um hvað gerðist með Lagarfljót? Lagarfljót er að deyja. Ég býð hv. þingmanni að drífa sig og kíkja á Lagarfljót, kannski hefur hv. þingmaður ekki búið í Fljótsdalnum eins og ég gerði og þekki Löginn vel. (Gripið fram í.)

Ég ætla aðeins að ræða um þetta mál. Mér þykir leitt að við lærum aldrei af mistökum okkar. Ég veit að sá hæstv. ráðherra sem fer fyrir þessu máli var einmitt í sama hópi og ég tilheyrði sem barðist mjög hart gegn Kárahnjúkavirkjun. Þess vegna kemur það mér í opna skjöldu og verulega á óvart að þetta sé mál sem kemur frá fyrrverandi formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Ég var að lesa grein í dag eftir konu sem heitir Sif Sigmarsdóttir. Þessi grein birtist á fréttavefnum visir.is. Mig langar aðeins að grípa ofan í þessa grein. Ég held að hún hitti akkúrat á það sem ég var að reyna að segja áðan og fór kannski svolitlu offari. Með leyfi forseta:

„Því ef fréttir undanfarinna vikna hafa kennt okkur eitthvað þá er það hvernig óheftur sleikjuskapur þingmanna við landsbyggðina — óheflað kjördæmapot þeirra sem berjast með kjafti og klóm fyrir bitlingum heim í hérað í skiptum fyrir áframhaldandi þingsetu — hefur leitt hörmungar yfir náttúru landsins, heimili og fyrirtæki.

Niðurstaða dýrasta daðurs stjórnmálamanna við landsbyggðina í sögu landsins liggur nú fyrir. Kárahnjúkavirkjun var komið á koppinn svo framleiða mætti orku fyrir álver sem greiðir fyrir hana svo lágt verð að upphæðin var um langt skeið leyndarmál og, eins og fram kom í fréttum síðustu viku, greiðir nánast engan tekjuskatt hér á landi. Fyrir þetta fengu landsmenn að borga með þenslu og himinháu vaxtastigi sem gerði heimilum og fyrirtækjum erfitt um vik um árabil og — eins og frægt er orðið — dauða Lagarfljóts. Helsti ávinningur af Kárahnjúkavirkjun, stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, virðist því sá að í dag eru íbúar Reyðarfjarðar 544 fleiri en árið 2002 þegar smíðin á virkjuninni hófst.

Úps. Við hefðum betur hlustað á Andra Snæ og Draumalandið hans. En við gerum það bara næst. Eða hvað?“ — Ég held ekki.

„Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að frumvarp Steingríms J. Sigfússonar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, um stóriðju á Bakka við Húsavík væri einn stærsti kosningavíxill sem nokkru sinni hefði verið gefinn út. Frumvarpið, sem kveður á um að 2,6 milljarðar verði veittir í vegaframkvæmdir, jarðgöng og hafnarbætur við Húsavík til að þýska fyrirtækið PCC megi reisa kísilmálmverksmiðju í nágrenninu, liggur nú fyrir Alþingi.

En hver er ávinningurinn? Í athugasemdum sem fylgja frumvarpinu segir að áætlaðar tekjur kísilmálmverksmiðjunnar muni „tæpast einar og sér standa undir kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu innviða“. Með öðrum orðum: Framkvæmdin svarar ekki kostnaði. Jafnframt kemur þar fram að hún hafi „þensluáhrif í för með sér sem hækkar lítillega vaxtastigið með smávægilegum neikvæðum áhrifum á almenna atvinnuvegafjárfestingu“. Þar að auki er lagt til í nefndaráliti sem fylgir frumvarpinu að kísilmálmverksmiðjan njóti sérstakrar undanþágu frá því að greiða þá skatta og opinberu gjöld sem öðrum fyrirtækjum landsins ber að standa skil á.

Hljómar kunnuglega, ekki satt?

Erfitt er að sjá að kísilmálmverksmiðja á Bakka hafi marga aðra kosti í för með sér en að skapa 399 störf á Húsavík og nágrenni sem vill svo til að er einmitt í Norðausturkjördæmi, kjördæmi atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Svo fullur af kosningamóð er hins vegar atvinnuvegaráðherrann að honum nægir ekki aðeins að fólk og fyrirtæki greiði fyrir kjördæmapot hans með hærra vaxtastigi, afleiðingu stóriðjustefnu sem maður hefði haldið að bryti gróflega í bága við „græna“ hlutann í nafni flokks hans. […]

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason lýsir yfir áhyggjum á heimasíðu sinni af afdrifum Mývatns verði kísilmálmverksmiðja á Bakka að veruleika. Andri Snær var einn háværasti andstæðingur Kárahnjúkavirkjunar.“ — Og nota bene, mikið hampað af Vinstri grænum. Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Við hunsuðum aðvaranir hans og annarra. Það væri landi og þjóð til ævarandi skammar að endurtaka mistökin.

Auðvitað mega stjórnmálamenn berjast fyrir því að halda fjölbreytilegri byggð í landinu með sértækum aðgerðum. En fórnarkostnaðurinn má ekki vera svo geigvænlegur að hann sligi náttúruna, fólkið og fyrirtækin.“

Ég verð að segja að ég er harla sammála þeirri ágætu konu sem skrifaði þessa grein. Ég er búin að vera mjög hugsi yfir málsmeðferðinni á þessu máli á Alþingi. Þetta er mjög stórt mál. Mjög. Það sem ég gagnrýni helst er sú staðreynd að við fáum ekki að velta við öllum steinum. Þetta er verri málsmeðferð en var í kringum Kárahnjúkavirkjun. Mér finnst það umhugsunarefni. Mér finnst skringilegt að þingmenn Norðausturkjördæmis skuli taka þátt í þessu, að þeir skuli virkilega ekki vilja gera verkefnið trúverðugra með því að fá nefndarfundi um málið, fara yfir það og heyra álit um hvort það sé einhver vá fyrir Mývatn. Því að ekki viljum við að Mývatn endi eins og Lagarfljót, eða það vona ég að sé samdóma álit þingmanna í þessum sal.

Ég hefði því óskað, verandi vitni að ríkisstjórn sem á að heita „semi“-græn eða rauðgræn, ég veit það ekki, að hún hefði ekki komið með þetta mál inn á síðustu stundu og það væri sett inn í samningana. Það er svolítið merkilegt að í öllum þessum foringjaslag um hvað má vera og hvað má ekki vera á dagskránni á síðasta degi þingsins voru allt í einu Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn komnir í faðmlög um þetta mál. Ég verð að segja að það er eitthvað skringilegt við það. Ég var að vonast til þess að með öllum þeim breytingum sem við ætluðum að taka okkur fyrir hendur að gera á þessu þingi gætum við komið í veg fyrir einmitt svona lagað. En það mun ekki verða. Málið verður dregið í gegnum þingið á lokasprettinum án þess að fengið verði faglegt álit í nefndum um hvort einhver skaði gæti hlotist af þessu verkefni fyrir Mývatn og annað.

Ég vil taka fram að ég hef ekki neitt á móti því að við stöndum við bakið á landsbyggðinni, enda lít ég svo á að ég sé hluti af henni, ég hef búið víðs vegar um land. Þótt mér finnist latte gott þýðir það ekki að ég kunni ekki að drekka sveitakaffi. Það er alltaf verið að reyna að skipta þjóðinni í tvennt, í sveitaliðið og latteliðið og etja þeim saman, en kannski ættum við bara að fara að því dæmi sem þessi ágæti pistlahöfundur leggur til í formála greinar sinnar og búa til lattelista til höfuðs Landsbyggðarflokknum, það er möguleiki.

Ég var búin að lofa sjálfri mér því að ræða um þetta. Það er ágætt að fá tækifæri til þess þótt það sé orðið seint og aðeins örfáir þingmenn ætli að vekja athygli á því að eitthvað er ekki eins og það á að vera í afgreiðslu málsins. Vil ég taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni sem þekkir kannski einna best til af þeim sem hafa þorað að gagnrýna Vinstri hreyfinguna – grænt framboð fyrir tvískinnungshátt. Ég vil reyndar taka ofan fyrir umhverfisráðherra fyrir að standa með því sem hún á að gera sem umhverfisráðherra. En ég vil þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir að hafa staðið vaktina um langt árabil í umhverfismálum á Íslandi og fannst ranglega að honum vegið fyrir að segja það sem segja þurfti.