141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[00:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta mál en tel nauðsynlegt að koma upp til að leiðrétta aðeins þá umræðu sem hér hefur farið fram, þ.e. varðandi umfang þessa verks sem þarna er áætlað að fari af stað. Í umræðunni hefur þetta verið borið saman við risaverksmiðjur, álverksmiðjur Alcoa á Reyðarfirði, virkjunarkostirnir og virkjunar- eða orkuþörfin hefur verið borin saman við Kárahnjúkavirkjun og látið líta svo út að þarna séu svipuð verkefni að fara af stað.

Það er langur vegur frá því, virðulegur forseti. Hér er um að ræða átta til tíu sinnum minna verkefni en þar um ræðir og áætlað var að ráðist yrði í á Húsavíkursvæðinu á sínum tíma. Það hefur auðvitað allt önnur áhrif á svæðið, á nærumhverfið, á orkusvæðin og á efnahagslíf þjóðarinnar í heild sinni.

Það verkefni sem hér um ræðir fellur betur að því umhverfi sem verksmiðjan verður reist á. Efnahagsleg áhrif þess á nærsvæðið verða með allt öðrum hætti en um hefði verið að ræða ef menn hefðu farið í þær stórkarlalegu framkvæmdir sem menn dreymdi um að fara í upp á átta til tíu sinnum meira umfang en verið er að tala um hér — ég tala nú ekki um efnahagsleg áhrif á samfélagið allt eins og dæmin sýna varðandi það sem gerðist á Austurlandi og þau ósköp sem dundu á í kjölfarið á því.

Verkefnið sem hér um ræðir er í þeim anda og af þeirri stærðargráðu sem talað hefur verið um, meðal annars af þessum ríkisstjórnarflokkum, meðal annars af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, frá upphafi, þ.e. að í stað þess að ráðast í stóra risaverksmiðju sem þurrkar upp heilu orkusvæðin með mjög neikvæðum áhrifum á lífríkið, á orkusvæðin, á efnahagslífið, á nærumhverfið, á samfélagið þar sem þessi verkefni fara af stað — þess í stað verði farið í svipuð verkefni og hér um ræðir, þ.e. sem er sambærilegt að umfangi, ég tek sem dæmi verksmiðju Becromal á Akureyri, þar sem orkuþörfin er svipuð, eða um 50 megavött.

Hér er því ekki um neitt sambærilegt við Kárahnjúka að ræða. Þetta fellur að þeim hugmyndum sem þessi ríkisstjórn hefur unnið að stanslaust frá því hætt var við risaverksmiðjuhugmyndirnar á Bakka í tengslum við Alcoa á sínum tíma og var samþykkt í ríkisstjórn í kjölfar þess að vinna að verkefni sem þessu. Þetta á ekki að koma nokkrum manni á óvart. Þetta hefur verið í ferli hjá stjórnvöldum í bráðum fjögur ár. Þetta hefur verið margrætt í þinginu á ýmsum stigum málsins af ýmsu tilefni og kemur nú til 3. umr. í kvöld og í nótt, og til afgreiðslu í þinginu eftir 2. umr. í gær og eftir að því hafi verið fylgt úr hlaði hér fyrr í vetur.

Til að forðast þann misskilning sem mér finnst gæta á þessu verkefni, á umfangi þess og áhrifum, vil ég árétta að um er að ræða allt annars konar verkefni en um hefur verið talað. Mér finnst sanngjarnt að þess sé getið í þessari umræðu áður en lengra verður haldið.