141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[00:52]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til stjórnarskipunarlaga, um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins, sem var samþykkt áðan í 2. umr. þar sem þingmenn — minni hluti þingmanna Alþingis Íslendinga, 38,1% svo að við séum nákvæm — samþykktu að gera þá kröfu að 40% kjósenda þyrftu að samþykkja stjórnarskrá. Mig langar að benda á að þetta er allt gert í nafni einhvers konar sáttar, vegna þess að það verði að ríkja svo mikil sátt um stjórnarskrárbreytingar. Samt erum við að gera hér breytingu á stjórnarskrá með samþykki 38,1% þingmanna.

Verðum við ekki að gera meiri kröfur til okkar sjálfra en við gerum til þjóðarinnar? Verðum við ekki alla vega að standast þær kröfur sem við gerum til almennra kjósenda? Það sem er að gerast hér í kvöld er þvílík hneisa fyrir Alþingi Íslendinga að ég skora á þingmenn að segja nei við 3. umr. til að bjarga andliti þessa þings. Við getum ekki gengið þannig fram að við gerum meiri kröfur til þjóðarinnar en við treystum okkur til að standa undir sjálf.

Ég fer í þessu nefndaráliti — ég nenni ekki að lesa það, það liggur fyrir á þingskjali — yfir rök fyrir því hvers vegna 40% samþykkisþröskuldur er allt of hár. Ég held að það hljóti að vera okkur öllum sem tókum þátt í þessari atkvæðagreiðslu áðan umhugsunarefni. Við hljótum jafnvel öll að hafa upplifað það að hann er of hár fyrst við gátum ekki einu sinni staðið undir því sjálf að samþykkja þetta með 40% atkvæða.

Mér hefur verið bent á annan ágalla á þessu ákvæði, þ.e. hér er hvergi minnst á að atkvæðagreiðsla eigi að vera leynileg eins og þó er venjulega um kosningar — í 40. gr. í breytingartillögu minni er talað um alþingiskosningar, að þar skuli kosið leynilegri kosningu til fjögurra ára. Ekki er talað um það hér og með þessum háa samþykkisþröskuldi, það er til umhugsunar fyrir þingheim, hljótum við að gera ráð fyrir að allir sem séu samþykkir mæti á kjörstað. Þá er spurningin: Er það þá enn leynileg kosning? Getur það kallast leynileg kosning í litlu sjávarþorpi einhvers staðar úti á landi þar sem útgerðarmaðurinn á allar sálir og verið er að greiða atkvæði um auðlindaákvæði í stjórnarskrá — þegar viðkomandi getur horft út um gluggann og séð hverjir mæta á kjörstað? Ég velti því fyrir mér.

Hér er fylgiskjal með nefndarálitinu, minnisblað sem við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd létum taka saman um allar ábendingar um stjórnarskrárbreytingar, mig langaði bara að hafa þetta með. Hér eru gríðarlega miklar upplýsingar. Þetta sýnir svolítið hvernig málið hefur verið unnið síðustu tvö ár. Við höfum hlustað á allar raddir og reynt að viða að okkur eins miklum upplýsingum og hægt er, en hér ákveða menn að draga upp úr hatti nýtt ákvæði sem ekkert hefur verið skoðað og ekkert hefur verið rætt eins og það sé bara sniðugt.

Hér kom einn þingmaður upp í ræðu fyrr í kvöld, þegar við vorum að ræða náttúruverndarlögin, og hneykslaðist mikið á því að um væri að ræða nýja breytingartillögu sem hann væri að sjá í fyrsta skipti í dag, spurði hvort þetta væru vinnubrögð sem við gætum verið stolt af. Þá vorum við að tala um utanvegaakstur og vegaslóða. Nú erum við að tala um stjórnarskrá. Hefur Feneyjanefndin sagt álit sitt á þessu ákvæði, þessu orðalagi? Eru menn vissir um að þetta sé skothelt? Hvað finnst Björgu Thorarensen um þetta ákvæði, vitum við það? 38,1% þingmanna gera þá kröfu að 40% þjóðarinnar samþykki stjórnarskrárbreytingar áður en þær verða að veruleika, en við treystum okkur ekki til að standa undir þeim kröfum sjálf, við hér á Alþingi Íslendinga.