141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[00:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir breytingartillögu hennar sem var ekki neitt skoðuð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en við fengum 15 mínútur til þess að fara yfir ítarlegt álit hennar, ég veit að þingmaðurinn hefur setið í allan dag við að skrifa það álit. En við erum að flýta okkur, það eru allir á leiðinni í frí og kosningabaráttu, því getum við ekki gefið alvarlegum ábendingum um óyfirstíganlega þröskulda til að breyta nýrri stjórnarskrá gaum. Það er mjög sorglegt.

Ég heyri það og tek eftir að flestum en ekki öllum — það eru örfáir þingmenn sem láta sig þetta mál varða og mig langar að þakka nokkrum þingmönnum sérstaklega fyrir samstarfið í þessu máli. Ber þar hæst að nefna hv. þingmenn Valgerði Bjarnadóttur, Lúðvík Geirsson og að sjálfsögðu Margréti Tryggvadóttur og Álfheiði Ingadóttur. Þeir eru ekki miklu fleiri sem hafa verið jafnmiklir eldhugar gagnvart þessu máli. Að sjálfsögðu hafa fleiri þingmenn komið að málinu en ég hef fundið með þessum þingmönnum að hjörtu okkar slá af sambærilegum ákafa og ég veit að við erum öll full trega núna á þessari stundu.

Mig langar jafnframt að þakka hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir baráttu hennar fyrir málinu um langa hríð og mörgu því sem við fengum ekki í gegn. Tækifærið sem við glötuðum í dag kristallast í þessu hefti, þ.e. frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Einstakt ferli þar sem þjóðin tók svo ríkan þátt í að skrifa nýja stjórnarskrá að hægt var að segja án þess að skammast sín fyrir það að þjóðin skrifaði stjórnarskrá fyrir sig. Okkar hlutverk á Alþingi var að veita tillögum stjórnlagaráðs brautargengi, en í stað þess voru reistir þvílíkir þröskuldar að ég óttast að við munum aldrei fá svona plagg aftur til meðferðar á Alþingi nema eitthvað stórkostlegt gerist.

Ég held nefnilega, kæru félagar, að þessi dagur marki upphafið að einhverju sem Noam Chomsky skilgreindi sem „failed states“. Þessi dagur er miklu afdrifaríkari og örlagaríkari fyrir þjóðina en flestir gera sér grein fyrir. — Ég sé að hv. þm. Bjarni Benediktsson brosir og fleiri úr Sjálfstæðisflokknum. Þeir hafa náttúrlega náð fullnaðarsigri hér og ég óska þeim innilega til hamingju með þátttöku þeirra í að eyðileggja þetta merkilega ferli. Þeirra verður minnst, ekki bara hér, (Gripið fram í: Málið var ekki á dagskrá.) heldur víðs vegar um heim. (Gripið fram í: Málið var ekki á dagskrá.)

Segja má að þegar ég fékk í hendur lítið kver sem Daði Ingólfsson, framkvæmdastjóri fyrir Samtök um nýja stjórnarskrá, SANS, gaf út fyrir tveimur árum — þetta er lítið kver og utan á því er lítið blóm og það blóm er gleymmérei. Við höfum gleymt hlutverki okkar. Við erum hér ekki í neinu öðru hlutverki en að vera fulltrúar fyrir þjóðina. Við erum hér til að þjónusta þjóðina. Við höfum ekki getað, þessi stofnun hefur ekki getað breytt stjórnarskrá, gert heildstæða úttekt á nýrri stjórnarskrá, eins og kallað var eftir þegar við fengum þá sem við erum með núna og höfum haft í 70 ár. Ég er ekki tilbúin að bíða í 70 ár.

Ég hafði mikla trú á eindregnum vilja um breytt samfélag, ekki bara úti á götum, gleymum ekki hvað hátt hlutfall þjóðarinnar studdi mótmælin. Gerð var skoðanakönnun og 90% þjóðarinnar studdu mótmælin. Gleymum því ekki.

Ég þykist ekki, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson hélt fram í ræðu í dag, tala fyrir munn þjóðarinnar, það hef ég aldrei gert. Ég minni aftur á móti á að 70% þeirra sem mættu á kjörstað 20. október greiddu þessum drögum að nýrri stjórnarskrá atkvæði sitt, treystu okkur til að klára ferlið þannig að það mundi ekki enda eins og það er að enda í dag. Við höfum brugðist þeim. Við höfum brugðist þessum 70% landsmanna sem treystu okkur.

Ég veit, ég hef heyrt það og ég hef séð það hérna í þinginu hvernig fólk hefur litið á mig sem eitthvert frík fyrir það að vera með tilfinningar út af þessu máli og margir hafa gert grín að mér og fundist ég vera einfeldningur. Ég vil frekar vera einfeldningur en að eiga hesta, ég vil frekar vera einfeldningur en að svíkja mína huldumey.

Mig langar að enda ræðu mína — og það verða lokaorð mín á þessu þingi — á að lesa það sem ég las hérna fyrir tveimur árum og fyllti mig svo miklu stolti. Núna veit ég að af því að ég er klökk, að margir sjálfstæðismenn munu gera eins og síðast þegar ég var klökk hér, hlæja að því, því að það þykir svo kjánalegt. Það var á facebook, hjá vinum ykkar.

Ég vona að þið hlustið vel á þessi orð, þennan sáttmála þjóðarinnar eftir allt sem við höfum gengið í gegnum, ekki bara í þessu hruni, heldur í öllum hinum hrununum sem við erum búin að fara í gegnum.

Mig langar líka að þakka öllum, hverri einustu manneskju sem kom að því að gera þetta merkilega plagg. Mig langar til að skora á fólk að láta ekki þennan 40% þröskuld eyðileggja þetta mikilvæga ferli til að ná fram því sem við viljum vera. Hvers konar þjóð viljum við vera?

„Aðfaraorð.

Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda réttarríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“ [Lófatak á þingpöllum.]

(Forseti (UBK): Forseti biður um hljóð á þingpöllum.)