141. löggjafarþing — 113. fundur,  28. mars 2013.

kísilver í landi Bakka.

632. mál
[01:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég styð þetta mál en ég vil að það komi fram að ég tel eðlilegt að þær ívilnanir sem eru tilgreindar í málinu og þingið er nú að samþykkja eigi að gilda um önnur verkefni, að þetta eigi að verða almenn regla en ekki sértæk regla fyrir eitt fyrirtæki. Mér finnst til að mynda sjálfsagt að ívilnanir gildi um verkefnin, hvort sem við erum að tala um uppbygginguna í Helguvík eða annars staðar.

Síðan vil ég draga fram varðandi þann þjálfunarstyrk sem getið er um í frumvarpinu og mér skilst að geti numið um 250 milljónum, að ég tel varhugavert að fara þá leið að veita einu fyrirtæki umfram annað styrk með þessum hætti. Ég tel að eðlilegra hefði verið að setja þessa fjárhæð í almennan starfsmenntasjóð. Það hefur tekið ríkisstjórnina svo að segja allt kjörtímabilið að efla verkmenntasjóð, starfsmenntasjóð, ég hefði talið það eðlilegra þannig að öll fyrirtæki í landinu hefðu getað notið góðs af þessu, að þetta hefði farið í almennan starfsmenntasjóð fyrir öll fyrirtæki í landinu.