142. löggjafarþing — þingsetningarfundur

forseti Íslands setur þingið.

[14:08]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Gefið hefur verið út svohljóðandi bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 6. júní 2013.

Um leið og ég birti þetta, er öllum sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 3. júní 2013.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________________

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

 

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman fimmtudaginn 6. júní 2013.“

Samkvæmt bréfi því sem ég hef nú lesið lýsi ég yfir að Alþingi Íslendinga er sett.

Vonir fólksins fylgja ykkur sem nú myndið nýjan þingheim og berið næstu árin æðstu ábyrgð sem lýðræði og stjórnskipun landsins færa kjörnum fulltrúum.

Að baki er erfið glíma, endurreisn efnahagslífsins í kjölfar áfalla sem voru einstæð í sögu þjóðar, tími átaka og umsáturs um Alþingishúsið, vetrarnætur þegar eldar brunnu á Austurvelli og víggirðing lögreglunnar skipti sköpum um öryggi alþingismanna. Þær stundir verða um aldir greyptar í minni okkar Íslendinga, áminning og viðvörun um að lýðræðið er brothætt. Bregðist traustið getur grasflötin hér úti á skammri stundu breyst í völl andófs og átaka.

Það er kannski mest um vert, allra verka síðasta kjörtímabils, að friðsæld hins íslenska samfélags var endurheimt, að þjóðin gekk í vor til kosninga með sama hætti og löngum var aðalsmerki okkar lýðveldis og forustusveitir flokkanna gátu gefið sér góðan tíma til myndunar nýrrar ríkisstjórnar.

Og um leið og ég býð alla, einkum þá sem kjörnir eru í fyrsta sinn, velkomna til þings og óska nýjum ráðherrum farsældar færi ég fráfarandi ríkisstjórn og Alþingi þakkir fyrir störf þeirra á undanförnum árum. Þótt verkin væru mörg hver umdeild og orðræðan hér í salnum oft ærið hvöss sýnir svipmót kosninganna, stjórnarmyndunar og setningar Alþingis nú að lýðræðisskipan okkar Íslendinga stóð af sér veðrin. Það tókst að varðveita kjarna hennar, hið friðsæla samfélag sem veitir vilja fólksins öruggan farveg til að breyta um stefnu og velja nýja fulltrúa.

Stjórnskipun landsins, stjórnarskrá lýðveldisins, hefur greitt götu endurnýjunar Alþingis, bæði nú og fyrir fjórum árum, á svo afgerandi hátt að einsdæmi er í sögu okkar og víðar í Evrópu. Þorri alþingismanna er ýmist nýr eða með fáein þingár að baki. Það sýnir ásamt öðru, líkt og ég hef ítrekað á undanförnum árum í nýársávörpum til þjóðarinnar og við embættistöku forseta, að lýðveldisstjórnarskráin sem gildi tók á Þingvöllum 1944 og var endurbætt nokkrum sinnum í breiðri sátt hefur bæði staðist eldraun hrunsins og verið farvegur breytinga.

Þótt bæta megi hana enn, svo sem með ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur, þjóðareign á auðlindum og aukið sjálfstæði dómstóla, hefur hún reynst traustur rammi um þá lýðræðisskipan sem Íslendingar kjósa helst, skapaði fyrir fjórum árum leið til stjórnarskipta og nýrra kosninga, gaf stjórnvöldum svigrúm til að verða við kröfum mótmælenda, veitti rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu um ágreiningsefni, gaf fjölda nýrra flokka tækifæri til að afla sér fylgis, skilaði einstæðri endurnýjun á Alþingi og nýrri ríkisstjórn með hefðbundnum hætti.

Eftir umrót liðinna ára er hin lýðræðislega stjórnskipun lýðveldisins á ný föst í sessi, vilji fólksins hreyfiafl þess sem gera skal en líka vísbending um varðveislu hins sem mestu skiptir.

Alþingiskosningarnar skiluðu mikilvægum boðskap um stjórnarskrána og reyndar einnig skýrri niðurstöðu um framtíðarskipan fullveldisins. Afgerandi meiri hluti hins nýkjörna þings er bundinn heiti um að Ísland verði utan Evrópusambandsins og málið fært í hendur þjóðarinnar.

Á vissan hátt var eðlilegt að Alþingi skyldi fyrir fjórum árum, þegar örlagaþrungin óvissa ríkti í efnahagslífi okkar og hins vestræna heims, sjá kosti í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, einkum vegna evrunnar sem þá virtist búa að styrk. En nú blasir við annar veruleiki, enginn veit hvernig Evrópusambandið kann að þróast og evrusvæðið býr við dýpri kreppu en löndin í norðanverðri Evrópu, Ameríku og Asíu.

Viðræðurnar við Ísland hafa líka gengið afar hægt, nú þegar staðið lengur en þegar norrænu EFTA-ríkin, Svíþjóð og Finnland, áttu í hlut. Kjörtímabilinu lauk án þess að hreyft væri við þeim efnisþáttum sem mestu máli skipta fyrir okkur Íslendinga. Þessi atburðarás og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.

Ástæðurnar eru frá sjónarhóli sambandsins sjálfs að mörgu leyti skiljanlegar. Norræn lýðræðisþjóð felldi aðildarsamning tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslum og áfall yrði ef slíkt gerðist í þriðja sinn með höfnun Íslendinga. Þá virðast litlar líkur á þróun varanlegrar sjávarútvegsstefnu sem Íslendingar teldu þjóna sínum hagsmunum. Þar að auki telja ýmis aðildarríki nær að sigrast fyrst á núverandi erfiðleikum sambandsins áður en farið væri að koma til móts við kröfur Íslendinga.

Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram, mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.

Við Íslendingar eigum þó engu að síður að gleðjast yfir því að staða okkar á vettvangi alþjóðlegrar samvinnu er nú traustari en nokkru sinni, ofin sterkum böndum bandalaga og samstarfs við næstu nágranna og öll helstu ríki heims. Norrænt samstarf verður sífellt víðtækara eins og nýleg heimsókn forseta Finnlands sýndi glöggt, aðild að Atlantshafsbandalaginu, EFTA og Evrópska efnahagssvæðinu áfram vitnisburður um trausta vináttu við lýðræðisríkin í Evrópu og Norður-Ameríku.

Nýlegar breytingar á Norðurskautsráðinu hafa og leitt til þess að tíu af stærstu efnahagskerfum heims, Bandaríkin, Rússland, Kína, Indland, Japan, Þýskaland, Frakkland, Ítalía, Bretland og Kanada, munu framvegis ásamt okkur, öðrum norrænum þjóðum og fleiri ríkjum koma þar saman til að móta farsæla, ábyrga og sjálfbæra framtíð norðurslóða. Þessar breytingar færa Íslandi fjölda nýrra tækifæra. Við eigum efnisrík erindi við allar helstu áhrifaþjóðir heims og þær leita ákaft eftir nánara samstarfi við okkur.

Við erum í reynd að verða vitni að sögulegum þáttaskilum. Ísland er komið í alfaraleið nýs áhrifasvæðis þar sem glíman um loftslagsbreytingar og aukna hagsæld verður einkum háð. Norðrið, heimaslóðir okkar, nú vegvísir um örlög allra jarðarbúa.

Ákvarðanir hins nýja Alþingis munu því skipta miklu, bæði fyrir Íslendinga og okkar góðu granna, Grænlendinga og Færeyinga, en líka fyrir sess okkar í samfélagi þjóða heims.

Alþingi varðaði á sínum tíma veginn að fullu sjálfstæði þjóðarinnar, færði með útfærslu landhelginnar landsmönnum forræði á auðlindum hafsins, lagði grundvöll að velferð og framförum sem hafa þrátt fyrir áföll skilað okkur í fremstu röð. Á þessari vegferð, við mótun arfleifðar sem nú er í ykkar höndum, nýkjörnu þingmenn, hefur það verið gæfa Íslendinga að þegar á reyndi réð samstaðan för, ágreiningi var ýtt til hliðar og gagnkvæm virðing fyrir ólíkum áherslum gerði flokkum og fylkingum kleift að taka höndum saman um brýnustu hagsmuni þjóðarinnar.

Þess er einnig þörf nú, áskorun sem bíður ykkar, prófsteinn sem úrslitum ræður um virðingu þessarar stofnunar. Samstaða í krafti þjóðarvilja er æðsta skylda Alþingis.

Í anda hennar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkvæmt 1. gr. þingskapa ber nú þeim þingmanni sem lengsta fasta þingsetu hefur að baki að stjórna fundi þangað til forseti Alþingis hefur verið kosinn og bið ég í fjarveru starfsaldursforseta hv. 2. þm. Norðvesturkjördæmis, Einar K. Guðfinnsson, 2. starfsaldursforseta, að ganga til forsetastóls.

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland.]