142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:41]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Ég vil byrja á því að óska ríkisstjórninni velfarnaðar og nýkjörnum forseta Alþingis jafnframt gæfu í sínum störfum og minni á að hann er forseti okkar allra þingmanna. Ég vil óska nýjum þingmönnum gæfu og velfarnaðar í störfum og öðrum til hamingju með endurkjörið. Ábyrgð okkar er mikil, ég tek undir þau orð hæstv. forsætisráðherra. Verkefnin fram undan eru stór.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka þeim stjórnmálamönnum sem eru horfnir af þessum vettvangi og þakka þeim fyrir jafnvel áratugalangt óeigingjarnt starf, þjónustu í þágu lands og þjóðar.

Það eru mikil tímamót núna í pólitíkinni. Ný kynslóð er tekin við stjórnartaumunum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Í þessu felast mjög mikil tækifæri. Við getum raunverulega breytt stjórnmálamenningunni. Það vekur bjartsýni í mínu brjósti að heyra að sú áhersla er mjög rík í máli allra að við ætlum að einbeita okkur að því að gera stjórnmálamenninguna betri.

Síðasta kjörtímabil var um margt mjög óvenjulegt og erfitt. Það byrjaði með hruni efnahagslífs. Það byrjaði með gjaldþroti bæði ríkisins og Seðlabankans, ógnarstórum viðfangsefnum. Það gekk gríðarlega mikið á. Ríkisstjórnin þurfti mjög oft að koma með frumvörp í flýti inn í þingið og sumir höfðu á orði að það þyrfti að stunda einhvers konar skapandi löggjöf hér í þinginu. Við vorum að takast á við fordæmalaus viðfangsefni.

Það er mjög mikilvægt núna þegar betur horfir við í efnahagslífi þjóðarinnar og almennt í þjóðarbúskapnum að við reynum að einbeita okkur að því að tileinka okkur ekki eða að festa í sessi ýmsa ósiði sem urðu til á síðasta þingi í öllum hamaganginum. Við verðum að vanda okkur við það að bæla niður ýmsar tilfinningar sem sjálfsagt bærast í brjóstum margra þingmanna. Freistingin er örugglega talsverð til þess að láta aðra kenna á eigin meðulum.

Hér var til dæmis pontan hertekin mörgum sinnum með langri mælendaskrá. Menn fóru upp í pontu aftur og aftur til að hindra að atkvæðagreiðsla gæti farið fram. Það er sjálfsagt skrýtið í huga margra sem sitja núna í minni hluta að heyra þá hina sömu og stunduðu þessi vinnubrögð tala um nauðsyn þess að við komum á sátt og betri vinnubrögðum hér inni.

Sjálfsagt er líka erfitt fyrir þá sem sitja í stjórn núna að halda aftur af þeirri freistingu sinni að beita ýmsu því sem þeir töldu óvönduð meðul á liðnu kjörtímabili. Við þurfum sem sagt öll að einbeita okkur. Við ættum ekki að stunda pólitík eins og við hvert og eitt okkar teljum að aðrir hafi stundað hana verst heldur skulum við stunda hana eins og við teljum að hún sé stunduð best. Það er verkefnið. Við skulum ekki bæta á bölið með því að benda á annað verra.

Björt framtíð er nýtt afl. Við komum hér inn á þing með sex þingmenn. Fjórir eru nýir, tveir hafa setið hér áður. Við erum frjálslynt afl. Við kennum okkur einnig við umhverfisvernd og við erum alþjóðlega sinnuð. Það merkir meðal annars að við teljum að hugsanlegt sé að fullveldi þjóðarinnar sé best borgið í samstarfi við önnur fullvalda ríki sem deila með okkur gildum.

Kveikjan að stofnun Bjartrar framtíðar var jafnframt löngun til þess að breyta stjórnmálunum. Við ætlum að einbeita okkur að því. Við ætlum að stunda uppbyggilega stjórnarandstöðu. Við ætlum að vera gagnrýnin. Við verðum föst fyrir. Við höfum ríkar skoðanir á helstu hitamálum samtímans en við ætlum að vera uppbyggileg. Við ætlum ekki að hindra mál í atkvæðagreiðslu. Við ætlum að reyna að leiða til þess í störfum okkur að mál fái vandaða meðferð og lýðræðislega meðhöndlun.

Þetta verður krefjandi, vissulega, vegna þess að þegar eru mörg stór teikn á lofti um að við séum mjög ósammála ýmsu í áherslum ríkisstjórnarinnar. En það er einmitt í þeim kringumstæðum sem reynir á flokk sem ætlar sér að breyta stjórnmálunum. Við ætlum að einbeita okkur að því.

Ég fagna því að hæstv. forsætisráðherra leggur áherslu á rökræðu, samræðu og samvinnu. Við gerum slíkt hið sama. Ég held að við eigum samleið í mörgum málum, a.m.k. leyfi ég mér að vona það. Ég held að við hljótum að eiga samleið í þeirri áherslu að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf.

Við tveir þingmenn sem vorum fulltrúar Bjartrar framtíðar á liðnu kjörtímabili, lögðum áherslu á að samþykkt yrði fjárfestingaráætlun við síðustu fjárlög þar sem fé var veitt til skapandi greina, tækni- og hugverkaiðnaðar, til uppbyggingar ferðaþjónustu og til græns iðnaðar. Ég vona innilega að það verði gefið í í þeim efnum vegna þess að við þurfum fjölbreytt atvinnulíf. Við þurfum þessar greinar sterkari því þar er framleiðni mikil. Þetta getur skapað okkur mikinn auð.

Talandi um framleiðni, ég greini þá áherslu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að ríkisstjórnin vill beita sér í því að auka framleiðni, bæta framleiðni í íslensku samfélagi. Skýrslur hafa leitt í ljós að þar er mikið verk að vinna. Framleiðni á íslenskum vinnumarkaði er talsvert minni en í nágrannasamfélögum. Þetta getur kallað á erfiðar ákvarðanir, mikla vinnu, mikla samræðu. En við deilum þessum áherslum.

Ég sakna þess reyndar að hæstv. forsætisráðherra skyldi ekki tala meira um menntakerfið í ræðu sinni. Við leggjum mikla áherslu á að við einbeitum okkur að því að bæta menntakerfið. Tökum á því sem er hryggileg staðreynd í íslensku samfélagi sem brottfall nemenda úr námi. Ekkert er jafn átakanlegur vitnisburður um sóun á hæfileikum, á tíma og fé, og brottfall úr námi. Ég vona að við munum sameinast í því markmiði okkar að auka sveigjanleika í kerfinu, auka stuðning við nemendur, auka fjölbreytni í námi svo að við getum útrýmt svo að segja brottfalli nemenda.

Ég vona að við einbeitum okkur að því að gera heilbrigðiskerfið sterkara með öflugri heilsugæslu um allt land og með hjúkrunarrýmum. Það er reyndar óljóst í stjórnarsáttmálanum með nýjan spítala. Sá sem við búum við núna er úreltur og það er dæmi um sóun á peningum að byggja ekki nýjan spítala.

Ég vona að við sameinumst líka um ýmis markmið í mannréttindamálum og gleymum því ekki að þar er verk að vinna. Við gleymum oft þegar við tölum um mannréttindi þeim hópum sem þurfa einna mestar mannréttindabætur, t.d. fatlað fólk. Ég vona að við eflum sjálfstætt líf fatlaðs fólks á Íslandi.

Ég vona að við bætum skilyrði barna sem búa á tveimur stöðum og jöfnum aðbúnað umgengnisforeldra og lögheimilisforeldra. Ég vona að við tökum á móti innflytjendum og hælisleitendum af hugprýði, dirfsku og umburðarlyndi og séum framsýn þjóð í þeim efnum.

Svo eru það hitamálin sem ég efast ekki um að við munum deila um á þessu kjörtímabili. Umhverfis- og auðlindamál koma upp í hugann. Mér finnst áhyggjuefni að gefið skuli í skyn að umhverfisráðuneytið verði ekki sjálfstætt. Ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana að það verði ekki sjálfstætt ráðuneyti. Svo yfirgripsmikill er þessi málaflokkur að það gengur auðvitað ekki og yrði gríðarleg afturför ef umhverfisráðuneytið yrði ekki sjálfstætt.

Hæstv. forsætisráðherra lagði áherslu á umhverfismál í ræðu sinni áðan. Ég geri ráð fyrir að við eigum samleið þegar kemur að því að auka notkun á vistvænu eldsneyti og vinna gegn loftslagsvánni.

Hins vegar eru þegar teikn á lofti um að farið verði með ákveðnum yfirgangi á hendur þeim sem vilja vernda óspjallaða íslenska náttúru. Það var komið til móts við sjónarmið þeirra við samþykkt rammaáætlunar á yfirstöðnu þingi. Ég mæli eindregið gegn því að sú sátt, sem ég lít á sem sátt, verði rofin. Þessi ríkisstjórn sem leggur svona ríka áherslu á þjóðmenningu verður að gera sér grein fyrir að það er ríkur þáttur í þjóðmenningunni að tengja sig óspjallaðri náttúru.

Við verðum líka að spyrja okkur: Af hverju erum við að virkja? Við verðum að selja orkuna á viðskiptalegum forsendum. Það mál finnst mér óútkljáð.

Í ríkisfjármálum blasa við stórar spurningar. Það getur ekki verið einhvers konar sannleikur — við verðum a.m.k. að ræða það sem virðist birtast sem einhvers konar sannleikur í stefnu ríkisstjórnarinnar, að skattalækkanir almennt skapi tekjur. Það getur ekki verið svo. Það er ekki svo. Sumar skattalækkanir geta verið skynsamlegar en almennt séð minnka skattalækkanir tekjur. Ef ríkisstjórnin ætlar að fara mjög bratt í skattalækkanir verður mjög fróðlegt og athyglisvert að sjá næstu fjárlög, vegna þess að þá verðum við að ræða niðurskurð. Það verður mikil hitaumræða.

Skuldamálin. Margt er óútkljáð í þeim. Hvernig á að afla fjármagnsins til þess að fara í skuldalækkun á heimilunum? Það liggur ekki fyrir. Við í Bjartri framtíð munum spyrja gagnrýninna spurninga um þessi mál. Vegna þess að ef svigrúm skapast verðum við auðvitað að vekja athygli á því líka að samfélagið er eftir langvarandi kreppu fjársvelt. Það verður krafa um að nota þá peninga hugsanlega til annars konar lífskjarabóta. Það þurfum við að ræða allt saman.

Efnahagsmálin. Þau eru óljós í stjórnarsáttmálanum. Það stendur til að koma á stöðugleika og minnka verðbólgu á Íslandi með krónu án hafta. Það hefur illilega mistekist áður í efnahagssögunni. Það er óljóst hvernig það á að takast núna.

Það leiðir hugann að Evrópusambandinu. Ein ástæða þess að við erum í viðræðum við Evrópusambandið enn þá er sú að margir telja að við mundum njóta góðs af því að taka upp evru sem gjaldmiðil, taka upp stöðugri gjaldmiðil. Nú á að gera hlé. En það er óljóst hvað á að gera svo.

Við í Bjartri framtíð viljum eindregið ljúka viðræðunum og leggja fullbúið plagg til samþykktar eða synjunar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. En við viljum höggva á þann hnút sem er núna kominn upp í þessum málum. Við ætlum því að leggja til núna á sumarþingi með þingsályktunartillögu að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu innan árs um það hvort halda skuli viðræðunum áfram. Það er nægur tími til þess að kanna stöðuna á viðræðunum sem þegar reyndar hefur verið gert með góðum skýrslum. Það er nægur tími líka til þess að kanna stöðuna í Evrópu. En þjóðaratkvæðagreiðslan — við verðum að fá á hreint hvort við ætlum að halda áfram viðræðunum eða ekki. Ég vænti þess að það sé víðtækur stuðningur við þessa nálgun.

Herra forseti. Ég borða lambakjöt. Ég á margar lopapeysur. Ég er BA í íslensku. Ég hef lesið allar Íslendingasögurnar. Ég elska mitt land. En sú tilfinning sem við berum til þjóðar okkar er margslungin hjá okkur hverjum og einum. Hún er fögur. En ég vil vara eindregið við því, vegna þess að mér finnst ýmsar vísbendingar vera um slíkt, að það eigi að nota þjóðmenningarhugtakið í pólitískum tilgangi. Ég ætla ekki að hafa þau orð fleiri. Ég vil bara vara við því.

Við skulum ekki sundra okkur. Við skulum reyna að leggja áherslu á gleðina. Ég vona að við getum haft lífsviðhorf manns, sem nýfallinn er frá, okkur að leiðarljósi í störfum okkar á komandi kjörtímabili. Ég ætla að leyfa mér að ljúka þessari ræðu með því að vitna í margfræg orð Hermanns Gunnarssonar og vona að þau ríki hér í þessum þingsal, með leyfi forseta: „Veriði hress. Ekkert stress. Bless.“