142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Sumir flokkar verða til vegna málefnalegs ágreinings. Píratar urðu til vegna málefnalegrar fátæktar. Skuldir heimilanna, hagvöxtur og atvinnumál eru öll mjög mikilvæg málefni en þau eru ekki þau einu. Heil kynslóð málefna hefur orðið út undan á sama tíma og hraðasta tæknibylting sem mannkynið hefur upplifað hefur átt sér stað. Upplýsingafrelsi, vernd uppljóstrara, aukið tjáningarfrelsi, raunhæf fíkniefnastefna og lýðræðisumbætur í formi þjóðaratkvæðagreiðslna og opinnar stjórnsýslu eru á meðal þeirra málefna sem Píratar hafa lagt hvað mesta áherslu á. Það er ekki víst að allir séu sammála um þessi mál en þau eiga það öll sameiginlegt að vera ekki tekin mjög alvarlega í pólitískri umræðu almennt.

Í kosningabaráttunni fór mikið fyrir loforðum um skuldaniðurfellingar og afnám verðtryggingar. Satt best að segja skildum við píratar aldrei nákvæmlega hvernig ætti að útfæra slíkar hugmyndir og skiljum reyndar ekki alveg enn. En það er síður en svo tilefni til andstöðu af okkar hálfu. Píratar stæra sig ekki endilega af takmarkalausri bjartsýni og kjarki en geta þó bætt fyrir þann skort með forvitni.

Í öðrum málefnum þarf ekki að höfða til ævintýragirni pírata til samstarfs. Hæstv. forsætisráðherra boðaði t.d. svokölluð lyklalög, flýtimeðferð dómsmála um skuldir heimilanna og að sekta fjármálafyrirtæki sem draga lappirnar við endurútreikninga, svo nokkur dæmi séu tekin. Það verður engin andstaða af hálfu pírata þegar kemur að þeim málum heldur þvert á móti ríkur stuðningur, vel á minnst því að samkvæmt hefðinni teljumst við píratar víst til svokallaðrar stjórnarandstöðu. Ólíklegt er að sú orðræða breytist á einu kjörtímabili en hún er röng. Það er óeðlilegt að sjálfkrafa sé litið svo á að flokkur sem ekki á aðild að ríkisstjórn hljóti að vera í sérstakri andstöðu við hana. Píratar eiga ekki fulltrúa í Seðlabankanum heldur en ekki erum við kölluð andstæðingar Seðlabankans. Allt tal um að lítill flokkur án ráðherra í ríkisstjórn hljóti að vera í einhvers konar andstöðu við ríkisstjórnina lýsir vel einu af mörgum vandamálum við lýðræðisfyrirkomulagið á Íslandi. Við buðum okkur ekki fram til ríkisstjórnar heldur til Alþingis, þess vegna heita kosningarnar alþingiskosningar.

Jafnvel þótt við píratar einkennumst af svolitlu pönki erum við ekki hingað komin til að heyja stríð. Við munum sigra með því að sannfæra. Auðvitað verða ekki eintómir blómvendir og fingrakossar á hverjum þingfundi og auðvitað erum við ósammála um sum mál og sem betur fer, en við erum ekki í stjórnarandstöðu í neinum raunverulegum skilningi. Við erum þrír þingmenn af 63.

Aftur að málefnunum, virðulegi forseti. Sum mál eru þess eðlis að fólk er efnislega ósammála, eins og þegar kemur að fíkniefnastefnu. Um önnur mál er í reynd sátt, jafnvel svo mikil sátt að það gleymist þegar samkeppnin um ágreiningsmálin verður hörð. Eitt af þeim málum er gegnsæi stjórnsýslunnar. Vissulega hafa yfirvöld sett ýmis gögn á netið og er það vel. Flestir flokkar, hvort sem þeir náðu inn á þing eða ekki, hafa lofað auknu gegnsæi enda er það eðlilega vinsælt meðal almennings. Minna er hins vegar um að flokkar tilgreini nánari útfærslu enda spilar upplýsingatæknin þar stærstan þátt. Upplýsingatæknin þykir ekki bara mjög torskilin og flókin heldur jafnframt grútleiðinleg í samræmi við það — en ekki meðal pírata. Það hlakkar í okkur þegar við sjáum tækifæri til að gera gögn skýrari og aðgengilegri almenningi.

Alþingisvinurinn, hugbúnaður sem píratar gerðu stuttu fyrir kosningar, er kannski skýrasta dæmið um metnað og getu pírata til þess að vinna úr gögnum sem þegar liggja fyrir og búa til úr þeim eitthvað sem skapar verðmæta umræðu. Eitt er nefnilega að gefa út hráar upplýsingar, annað er að meðhöndla þær og enn annað er að birta þær með þeim hætti að almenningur hafi gagn og helst gaman af. Það er eitt af sérsviðum pírata og því óskum við eftir samstarfi við alla flokka um að gera upplýsingahönnun á öllum sviðum stjórnsýslunnar í einu orði betri.

Gegnsæi hvetur embættismenn og opinbera starfsmenn til að fara varlega t.d. með skattfé þar sem þeir vita að þeir gætu þurft að standa skil á ákvörðunum sínum. Það er þó kannski ekki það sem flestir telja mikilvægast við gegnsæið, en langt má ná í þeim málaflokki með vel skilgreindu eftirliti. Það uppbyggilegasta sem gegnsæið gefur af sér er betri tækifæri til upplýstrar ákvörðunar.

Ég get nefnt dæmi í því sambandi. Allir virðast sammála um að lækka beri tryggingagjaldið. Hvers vegna? Það er vegna þess að allir þekkja forsenduna fyrir því, nefnilega atvinnuleysisprósentuna. Þegar sú prósenta hækkar þarf að hækka tryggingagjaldið en ef atvinnuleysi minnkar er komið svigrúm til þess að lækka gjaldið. Forsendurnar eru skýrar, skattur er gegnsær. Það litla sem frambjóðendum tókst að rífast um varðandi tryggingagjaldið í kosningabaráttunni var hvers vegna það hefði ekki verið lækkað fyrr, en enginn ágreiningur var um að lækka það því að það var spurning um staðreyndir, ekki verðmætamat.

En hvort sem fólk vill lækka skatta eða auka þjónustu liggur í augum uppi að því aðgengilegri og sýnilegri almenningi sem upplýsingarnar eru og því skýrari sem forsendur á bak við tölurnar eru því auðveldara er að ræða málin efnislega á skynsamlegum nótum.

Herra forseti. Sú skynsemi sem okkur er ætluð á þessu virðulega þingi verður ekki einungis framkölluð með harðorðum skoðanaskiptum heldur einnig og miklu frekar með beinhörðum staðreyndum. Upplýsingahyggja Pírata er nú eitt af verkfærum Alþingis og við hlökkum til að fá að komast að skynsamlegum niðurstöðum með þinginu öllu.