142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:07]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Í stjórnarsáttmálanum stendur: „Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur.“ Það er í mínum huga lykilatriði í stjórnarsáttmálanum þar sem áherslan er á samvinnu og atvinnusköpun. Á því byggir velferðin sem okkur er svo annt um því það eru launuð störf sem greiða fyrir matinn, húsnæðið, heilsugæsluna, leikskólana og allt annað sem við þurfum á að halda. Við eigum hvert og eitt að hafa tækifæri á góðum vellaunuðum störfum og þannig getum við byggt betra samfélag saman, í samvinnu, betra Ísland.

Ég vil samfélag sem byggir á samvinnu manna þar sem hver og einn tekur ábyrgð á sjálfum sér og axlar um leið ábyrgð sína á velferð samfélagsins. Samfélag þar sem við búum við jafnræði, sanngirni og lýðræði, þar sem við vinnum öll að því að tryggja hag hvers og eins í samfélaginu frekar en að hámarka hagnað örfárra. Í því samfélagi er fjölskyldan hornsteinninn.

Í stefnuyfirlýsingunni stendur einnig: „Ísland á að vera fjölskylduvænt land þar sem börn búa við öryggi og jöfn tækifæri og njóta lögvarinna réttinda líkt og aðrir þjóðfélagsþegnar. Stefna stjórnvalda skal stuðla að því að yngstu kynslóðirnar öðlist trú á framtíð lands og þjóðar og þá þekkingu og framfaraþrá sem er grundvöllur hagsældar til framtíðar.“

Kannski er þetta eitthvað sem okkur Íslendingum finnst svo sjálfsagt að ekki þurfi að nefna. Við megum aldrei ganga að þeim hornsteini sem sjálfsögðum hlut. Því verður skýr fjölskyldustefna eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forustu hæstv. forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Í þeim erfiðleikum sem dunið hafa yfir okkur á undanförnum árum er fátt mikilvægara en gott samspil fjölskyldu og samfélags til að tryggja heilbrigða samfélagsþróun. Íslenskar fjölskyldur koma nefnilega í öllum stærðum og gerðum. Þegar ég ólst upp fannst mér til dæmis fjölskyldutengsl annarra aldrei flókin. Reynslan af því að eiga eitt alsystkin, sex hálfsystkin og slatta af stjúpsystkinum hafði þjálfað mig snemma í að skilja hratt og vel fjölbreytt fjölskyldutengsl. Ég vorkenndi jafnvel vinum mínum sem áttu ekki nema eitt alsystkin.

Við Íslendingar eru ekki einsdæmi hvað þetta varðar. Danska hagstofan hefur 37 skilgreiningar á mismunandi fjölskyldugerðum: Föður og móður, móður og sammóður, móður og stjúpföður, eingöngu föður, eingöngu móður, alsystkin, hálfsystkin, fyrsta, annað eða þriðja hjónaband, pabbinn er bara vinur mömmu eða jafnvel númer úr sæðisbankanum. Óheft stærð og gerð fjölskyldunnar er og verður meginstoð og hornsteinn íslensks samfélags.

Barátta ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir heimili þessa lands er einmitt ekki hvað síst barátta fyrir fjölskyldur þessa lands.

Á haustþingi stefni ég að því að leggja fram sérstaka þingsályktun um fjölskyldustefnu til að styrkja stöðu íslenskra fjölskyldna og styðja þannig við heimilin. Í henni munum við leita leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar og rétt hennar til öryggis í húsnæðismálum. Þar munum við áfram vinna að því að gæta að jafnvægi á milli fjölskyldu og atvinnu og hvernig við getum tryggt jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi, umönnun og uppeldi barna sinna, að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað á grunni kynþáttar, trúarbragða, fötlunar eða kynhneigðar og hvernig við getum áfram unnið að því að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og að fjölskyldur njóti verndar og stuðning fyrir áhrifum ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna. Þar sem við setjum fjölskylduna raunverulega í fyrirrúm, allar fjölskyldur í sinni fjölbreyttustu mynd.

Í kosningabaráttunni hitti ég óteljandi fjölda ungra sem aldinna sem deildu með mér reynslusögum sínum af húsnæðismarkaðnum. Ungt par sem lagði allt sitt sparifé í íbúð, en sat nú fast með yfirveðsetta eign og barn á leiðinni. Miðaldra hjón sem tóku lán til að fara í nauðsynlegar lagfæringar á húsnæðinu, en sjá nú fram á að missa það. Föður sem lýsti því hvernig ein mestu mistök sem hann hafði gert hefði verið að ráðleggja barninu sínu að fjárfesta í húsnæði. Hvert og eitt þeirra sannfærði mig enn frekar um mikilvægi þess að setja heimilin í forgang. Þetta eru fjölskyldur þessa lands. Þau eru ástæða þess að hjá okkur verða skuldamálin ætíð í forgangi.

Á þessu þingi mun forsætisráðherra því leggja fram þingsályktunartillögu sem inniheldur aðgerðaáætlun í 10 liðum, sem munu taka á stöðu heimilanna. Þar hefur stjórnarandstaðan strax færi á að hjálpa okkur við að hjálpa íslenskum heimilum. Saman getum við sýnt kjark og þor til að takast á við vandann sem allt of lengi hefur ógnað íslenskum heimilum. Þetta er risastórt verkefni, en með samvinnu, kjarki og þori veit ég að við ráðum við það.

Hluti verkefnisins er að vinna úr erfiðri stöðu Íbúðalánasjóðs. Það munum við gera með samvinnu að leiðarljósi, samvinnu við alla hagsmunaaðila.

Í mínum huga verður nýtt húsnæðiskerfi að tryggja landsmönnum öryggi og val í samræmi við þarfir hvers og eins, ekki aðeins val um hvar á að kaupa heldur raunverulegt val um hvort kaupa á eigið húsnæði, búseturétt eða leigja um lengri eða skemmri tíma, val um öruggt húsnæði óháð rekstrarformi.

Ég vænti góðs samstarfs við stjórnarandstöðuna um þau stóru hagsmunamál sem ég hef nefnt hér.

Í ályktunum beggja stjórnarflokka og máli oddvita þeirra fyrir kosningar var mikil áhersla lögð á að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Í stjórnarsáttmálanum er nefnd sérstaklega hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og fjármagnstekna. Þar að auki var grunnlífeyrir almannatrygginga vegna lífeyrissjóðstekna skertur í tíð fyrri ríkisstjórnar og skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækkað um 20%. Það olli því að greiðslur til langflestra lífeyrisþega lækkuðu umtalsvert og þetta þarf að leiðrétta eins fljótt og auðið er.

Stefna stjórnvalda er skýr. Það þarf að stilla betur saman réttindi lífeyrisþega til greiðslna úr lífeyrissjóðum annars vegar og almannatryggingakerfinu hins vegar þannig að skapa megi meiri sátt um samspil þessara kerfa. Aldraðir eiga að njóta jafnræðis og sanngirni í samfélaginu og geta haldið virkni sinni eins og þeir kjósa og auðið er.

Jafnframt þarf að tryggja að hlutur öryrkja verði ekki fyrir borð borinn. Hef ég þegar óskað eftir góðri samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands varðandi endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem því miður skorti á við fyrri vinnu. Samfélag er samvinnuverkefni þar sem öll störf skipta máli og haldast í hendur.

Einhverjum kann að finnast þessi litla setning harla ómerkileg, en í mínum huga kristallast í henni þau gildi sem eiga að vera undirstaða alls hér á Íslandi. Við þurfum öll að taka höndum saman. Með sameiginlegum markmiðum og samvinnu getum við byggt til framtíðar okkur öllum til góðs.