142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstvirtur forseti, góðir áheyrendur. Það er augljóst að í pólitík greinir menn á um leiðir en markmiðin eru væntanlega þau sömu; að búa til tækifæri í íslensku samfélagi fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.

Það vill þannig til að þann 27. apríl síðastliðinn kaus íslenska þjóðin. Hún hafnaði leiðum Samfylkingar og Vinstri grænna og kaus nýja flokka til forustu. Þetta er staðreynd sem hv. þingmenn þurfa að hafa í huga sem hér gagnrýna strax í upphafi.

Verkefnin fram undan eru mörg og viðamikil og áherslu verðum við að setja á lækkun skulda ríkissjóðs. Fram hjá því getur enginn stjórnmálaflokkur litið.

Ég tel að við verðum að mynda samstöðu og hafa skýra sýn á nýjar leiðir í efnahagsmálum þar sem megináhersla okkar verður á stöðugleika og vöxt. Okkar er að leggja áherslu á að skapa samfélag þar sem allir geta fundið kröftum sínum farveg, þar sem velferð og öryggi borgaranna eru tryggð, að setja okkur sameiginleg markmið um raunhæfar aðgerðir fyrir heimilin, að bæta umhverfi atvinnulífsins og skapa því umhverfi sem leiðir af sér kjarabætur til launþega, kjarabætur sem haldast í hendur við verðmætasköpun í landinu. Þannig komumst við áfram.

Núverandi stjórnarflokkar, í samvinnu við aðra flokka á Alþingi, verða því að eyða óvissu í umhverfi atvinnulífs og ryðja úr vegi hindrunum á ýmsum sviðum.

Það er kristaltært og flestum ljóst að aukin atvinna eykur tekjur, dregur úr útgjöldum ríkissjóðs og sveitarfélaga, m.a. vegna atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar, og skilar þjóðinni efnahags- og félagslegum hagvexti.

Okkar bíður það verkefni að búa til stöðugt rekstrar- og skattumhverfi fyrir öll fyrirtæki í landinu. Sérstaklega ber þó að leggja áherslu á lítil og meðalstór fyrirtæki þannig að þau sjái sér hag í að fjárfesta, ráða til sín fólk og sækja fram. Það þarf að búa til tækifæri fyrir fólkið sem hefur viljann, getuna og kraftinn.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Það eru einföld sannindi að sköpun nýrra verðmæta, úrvinnsla nýrra hugmynda og öflun nýrra tækifæra verða til hjá einstaklingum sjálfum fái þeir til þess svigrúm án afskipta hins opinbera. Þar liggja tækifærin sem við þurfum til þess að byggja upp Ísland.

Við vitum að hagur heimilanna byggir á atvinnu og öryggi. Hvorki skuldavandanum né hinum félagslega vanda verður eytt nema fólk hafi vinnu, hafi tekjur til að greiða niður lánin og ráðstöfunartekjur til að leyfa sér og börnum sínum að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Stöðugt skattumhverfi er því skilyrði þess að einstaklingar, jafnt sem fyrirtæki, geti gert sínar framtíðaráætlanir og þeir verða að geta treyst því að stjórnmálamenn séu ekki sífellt að hringla í því umhverfi. Þess vegna ætla ég að fagna því að einfalda eigi skattkerfið, breikka tekjustofna og minnka tekjutengingar.

En skuldavandi marga heimila bíður úrlausnar og hæstv. forsætisráðherra kynnti í ræðu sinni að fram yrði lögð þingsályktunartillaga sem innihéldi aðgerðaáætlun í tíu liðum sem varða nauðsynlegar aðgerðir vegna stöðu heimilanna.

Hæstv. forseti. Öllum er það ljóst að margir binda miklar vonir við úrvinnslu og efndir vegna skuldastöðu heimilanna.

En hins vegar er líka jafnljóst að öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar og menntunar og forsenda þess að við getum tekið á fjárhags- og lánavanda í landinu. Einfalt skattkerfi, valfrelsi í lánamálum og afnám stimpilgjalda, svo eitthvað sé nefnt, mun skipta heimilin í landinu máli.

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Æðimörg verkefni bíða jafnt þingmanna sem ráðherra en eitt er í mínum huga stórt og veigamikið. Það er að sýna í verki að okkur sé alvara þegar við tölum um að auka tiltrú á stjórnmálamönnum og verkum þeirra sem og að efla virðingu Alþingis, þessarar elstu stofnunar þjóðarinnar. Stjórnmálaflokkar hafa boðað breytingar í þessa veru og þá er það okkar sem innan stjórnmálanna störfum að vera þær breytingar sem við boðum.

Góðir áheyrendur. Ísland er auðugt land, mannauðurinn mikilvægur sem og auðlindir náttúrunnar. Í landinu okkar bíða fjölmörg tækifæri til verðmætasköpunar. Höfum kjark og áræði til að nýta þau til hagsældar fyrir land og þjóð.