142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það var sérstaklega gleðilegt að heyra áðan í ræðu hæstv. forsætisráðherra talað um að efla lýðræðið og gefa almenningi bæði fleiri og betri tækifæri til þess að hafa áhrif. Þetta er eitt af þeim málefnum sem gjarnan verða út undan ýmist vegna þess að þeim er tekið sem sjálfsögðum hlut eða það er einfaldlega ekki nægur áhugi á þeim til að byrja með.

Þó að ég vilji ekki draga þau orð í efa er fullt tilefni til að vara sérstaklega við því að þarna séu leiðir sem líti lýðræðislega út en eru í reynd hannaðar til þess eins að líta þannig út. Það er sjálfsagt að þjóðaratkvæðagreiðslur verði að raunveruleika endrum og sinnum, jafnvel þegar allt er í besta lagi, en til þess að svo góðar breytingar geti átt sér stað er alla vega tvennt sem þarf að breytast í viðhorfi Alþingis og kannski landsmanna flestra.

Hið fyrra er það viðhorf að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi eingöngu að vera fræðilega mögulegar í algjörum undantekningartilfellum en megi alls ekki gerast reglulega í meðalstórum málum. Hættan við það viðhorf er sú að skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, segjum of há prósentutala til þess að af þjóðaratkvæðagreiðslu verði, verði viljandi gerð slík að þær séu í reynd nær óhugsandi. Á þeim tímapunkti höfum við gert illt verra.

Hið síðara er sú hugmynd að þegar verði af þjóðaratkvæðagreiðslu beri að húðskamma þá stjórnmálamenn sem eru á öndverðum meiði við meiri hlutann. Það er þetta viðhorf sem skapar andstöðu við þjóðaratkvæðagreiðslur og hún er óþörf. Það er allt í lagi að spyrja þjóðina af og til svo lengi sem við sitjum ekki hér og rífum hvert annað í okkur fyrir það eitt að vera á öndverðum meiði.

Að því sögðu hafa aldrei verið betri tækifæri til lýðræðisumbóta þó að tæknilegir vankantar séu til staðar við að halda leynilega kosningu yfir netið. Það má samt sem áður nota upplýsingatæknina í mun meira mæli til þess að spyrja þjóðina um hin ýmsu mál, í það minnsta ráðgefandi. En þá er mikilvægt að halda til haga möguleikanum á hefðbundnum þjóðaratkvæðagreiðslum í lagalega bindandi málum til þess að hægt sé að tryggja kosningavernd.

Virðulegi forseti. Að lokum langar mig svolítið að biðja nýja ríkisstjórn um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við ESB vegna þess að með því að halda slíka þjóðaratkvæðagreiðslu er hægt að ljúka því máli í eitt skipti fyrir öll, hvað sem okkur svo sem finnst. Persónulega hef ég ekki gert upp hug minn, ég veit ekki hvað við mundum kjósa um ef við ætlum að ganga inn í sambandið eða ef við ætlum ekki að ganga inn í sambandið. En til þess að vita hvað ég er að kjósa um þurfum við að klára þessar umræður. Það er alla vega það sem mér finnst. Mér þætti gott að geta kosið um það sem borgari, ekki bara sem þingmaður. Sjáandi að það hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi, þær leiddu ekki af sér algjört hrun Íslands. Þá vitna ég auðvitað til Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunnar umdeildu, við unnum það mál. Það kom á óvart, það kom mér á óvart en við unnum það. Það er ekki eins og þjóðin hafi alltaf rangt fyrir sér. Er það, hæstv. forsætisráðherra, virðulegi forseti?