142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Bjartsýni, kjarkur og þor eru einkennisorð stefnuræðu nýrrar ríkisstjórnar.

Það örlaði svolítið á eftirsjá í orðum sérstaklega fulltrúa fyrrverandi stjórnarflokka. Það kvað við dálítið annan tón hjá öðrum minnihlutaflokkum en eftirsjá var hjá fyrrverandi stjórnarflokkum eftir þeim völdum sem þeir höfðu. Þeir virtust hafa gleymt að þeir höfðu fjögur ár til að gera ýmislegt sem þeir síðan velta fyrir sér af hverju við erum ekki búin að koma í framkvæmd á innan við einum mánuði. Mér fannst örla dálítið á því að menn væru bæði að dæma fyrir fram, spá í hvað hugsanlega mundi verða gert og dæma það síðan harkalega. Við kveinkum okkur ekki undan harðri málefnalegri gagnrýni en við æskjum þess að hún sé sanngjörn, málefnaleg og heiðarleg.

Við ætlum að auka framleiðni, spara gjaldeyri, finna nýjar gjaldeyristekjur, auka atvinnu og skapa hagvöxt. Tækifærin eru víða í þeim málaflokkum sem ég stýri; í landbúnaði, sjávarútvegi og í öðrum málaflokkum eins og iðnaði, í menntun, í mannauðnum, skapandi greinum og svo mætti lengi telja.

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á umhverfismál. Ég hef þegar hafið vinnu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að landnýtingaráætlun, að skipulagi hafsins og að því hvernig við nýtum betur náttúruna þegar ferðaþjónustan eykst svo hratt sem raun ber vitni og það kallar á mótvægisaðgerðir hér á landi.

Á mörgum sviðum hefur okkur gengið vel að samþætta vernd og nýtingu samanber uppbyggingu fiskstofnanna við Ísland. Þar hafa farið saman áætlanir um nýtingu á forsendum sjálfbærrar þróunar hverrar tegundar. Þá fyrirmynd er mikilvægt að nýta einnig á fleiri sviðum. Við þurfum að vanda okkur við hverja ákvörðun og ana ekki að neinu. Ég vona að störf þingsins bæði í sumar og næstu fjögur ár verði þinginu til virðingar og vegsemdar.