142. löggjafarþing — 2. fundur,  10. júní 2013.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og býð nýja þingmenn velkomna til þings.

Síðasta kjörtímabil einkenndist af aðhaldi í ríkisfjármálum enda blasti gjaldþrot við ríkissjóði eftir hrun. Núverandi stjórnarflokkar kvarta í öðru orðinu undan slæmum viðskilnaði síðustu ríkisstjórnar og lofa síðan auknum útgjöldum og skattalækkunum í hinu orðinu, líkt og enginn sé morgundagurinn.

Það er skiljanlegt að nýir ráðherrar vilji ekki hljóma eins og þeir gömlu á fyrstu dögum kjörtímabilsins en þeir munu þó fljótt þurfa að horfast í augu við kaldan veruleika ríkisfjármálanna. Annaðhvort tekur ríkisstjórnin á fjármálum ríkisins af festu eða missir tökin á þeim strax í haust. Lausatök í ríkisfjármálum þýða lausatök í efnahagsmálum, sérstaklega ef stórframkvæmdum er bætt í jöfnuna. Í kjölfarið fylgir skammvinnt og kannski skemmtilegt þenslutímabil, en því lýkur næsta örugglega fljótt aftur með skuldasöfnun, gengislækkun og verðbólgu.

Nú mun koma í ljós hvort Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa lært af fyrri mistökum sínum eða hvort endurtaka á hina séríslensku þensluleið. Eitt mikilvægasta verkefni næstu missira er að endurskipuleggja húsnæðiskerfi landsmanna og ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að leita samráðs við stjórnarandstöðuna í þeim efnum.

Öllum er nú ljóst að staða Íbúðalánasjóðs er alvarleg. Á næstu dögum er von á sérstakri rannsóknarskýrslu Alþingis um starfsemi sjóðsins sem við verðum að nýta til að laga það sem betur má fara og læra af reynslunni.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eru rakin alvarleg mistök síðustu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í húsnæðismálum, enda var hvorki hlustað á gagnrýni sérfræðinga né stjórnarandstöðu. Geir H. Haarde hefur fúslega viðurkennt að mistök hafi verið gerð við myndun ríkisstjórnarinnar 2003, en þau mistök hafi verið óhjákvæmileg forsenda þess að hún var mynduð. Eftirmaður hans í formannsembætti, hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson, er vonandi ekki að kaupa ráðherrastólana jafn dýru verði.

Skuldavandi og stefna í húsnæðismálum er samtvinnað. Eitt er að koma til móts við skuldug heimili, annað að greina orsakir þess að svona fór. Alvöruleigumarkaður er mikilvægur liður í því að tryggja öllum landsmönnum húsnæðisöryggi og leiga þarf að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk, ekki síður en kaup á húsnæði. Fyrir hrun hafði fólk ekki val um neitt annað en mikla skuldsetningu til að öðlast húsnæðisöryggi. Það öryggi reyndist síðan minna en til stóð. Draumurinn um eigið húsnæði varð að skuldavanda.

Framsóknarflokkurinn hefur lofað kjósendum afnámi verðtryggingar. Það vekur því furðu að fyrstu skrefin í því eigi ekki að taka nú á sumarþinginu. Vill Framsóknarflokkurinn að fólk haldi áfram að taka verðtryggð lán ef banna á verðtryggingu eins og flokkurinn hefur lofað? Í þessu máli eins og flestum öðrum mæta stjórnarflokkarnir óundirbúnir til leiks. Fyrstu skrefin í afnámi verðtryggingar verður að taka á næstu vikum til að draga úr óvissu lántakenda.

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra hefur haft uppi góð orð um húsa- og minjavernd, en þegar kemur að náttúruvernd breytist tónninn. Því miður virðast viðhorf Framsóknarflokksins til náttúruverndar og umhverfismála vera svipuð og viðhorf yfirvalda til verndunar gamalla húsa fyrir 1970, algjört niðurrif. Verndun gamalla húsa eða bæjarhluta byggist á gildismati og þekkingu. Í raun snýst hún um lífsgæði og lífsviðhorf. Náttúruvernd byggist á svipuðum viðhorfum. Það fer því illa á því að Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tali um náttúruvernd með svipuðum hætti og Framsóknarflokkur Halldórs Ásgrímssonar.

Herra forseti. Stefnuræða forsætisráðherra einkennist af gamaldags fortíðarþrá og virðist fela í sér afturhvarf til fortíðar fremur en kynslóðaskipti í íslenskum stjórnmálum.