142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[13:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða. Ég vissi það að hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, væri illa haldinn af vúdú-hagfræði og teldi að hægt væri að búa til tekjur fyrir ríkissjóð með því að lækka skatta. Það er auðvitað margafsönnuð kenning um öll Vesturlönd, en það er athyglisvert að heyra núna að það er komið nýtt bandalag í þessu efni og formaður Framsóknarflokksins, hæstv. forsætisráðherra eltir þessar villukenningar. Eftir stendur að hér fengum við skýr skilaboð: Hæstv. forsætisráðherra treystir sér ekki til þess að segja að hann ætli að standa við að koma með hallalaus fjárlög.

Það þýðir að afnám hafta mun færast enn fjær sem raunverulegt markmið. Það þýðir líka að það mun verða erfiðara fyrir okkur að ná fram vaxtalækkun í þessu landi og betri aðstæðum fyrir íslensk fyrirtæki og íslenskan almenning. Með öðrum orðum; á fyrsta prófi í hagstjórn, á fyrsta prófi sem skynsemisstefna þessarar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum tekur þá snarfellur hún. Það er magalending þessarar ríkisstjórnar sem getur ekki skilað nokkurri skynsemi í stjórn efnahagsmála.