142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[13:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Nú hefur verið útbýtt á þinginu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga sem flutt er af hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Guðmundi Steingrímssyni og þeirri sem hér stendur. Það snýst um að staðfesta þá breytingu á stjórnarskrá sem samþykkt var á síðasta þingi og breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar þannig að unnt sé að samþykkja breytingar, samþykki Alþingi þær með 2/3 hluta þingmanna, og að 40% þjóðarinnar geti síðan samþykkt þær í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fyrir liggur að hv. þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu frumvarpsins síðast þegar það kom fyrir þingið, en mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra í fyrsta lagi eftir afstöðu hans til málsins nú þegar það kemur hér til staðfestingar. Mig langar líka að inna hæstv. ráðherra sem höfuð meiri hlutans hér á þingi eftir því hvort ekki liggi ljóst fyrir að meiri hlutinn muni greiða götu málsins á þinginu þannig að það muni koma hér til atkvæða að lokinni hefðbundinni umfjöllun í nefnd. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér framhald vinnu við stjórnarskrárbreytingar á því kjörtímabili sem nú er að hefjast?

Fyrir liggur að stjórnlagaráð og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd unnu afskaplega mikið verk á síðasta kjörtímabili með endurskoðun stjórnarskrárinnar. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér fyrir sér vinnuna í framhaldinu? Mun hann beita sér fyrir því að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki upp málið og vinni að stjórnarskrárbreytingum áfram, til að mynda þannig að unnt verði að nýta það breytingarákvæði sem liggur hér til staðfestingar, verði það samþykkt, og samþykkja breytingar á stjórnarskrá á kjörtímabilinu? Hvaða breytingar sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér í þeim efnum?