142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[13:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þegar þeir flokkar sem nú eru í stjórnarmeirihluta voru í stjórnarandstöðu, fyrir ekki svo löngu, reyndu þingmenn þeirra flokka mikið að spyrja ráðherra í fyrirspurnatíma út í afstöðu þeirra til frumvarpa fyrir fram. Það má segja að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, hafi í raun lagt línuna fyrir ríkisstjórnina hvað það varðaði með afdráttarlausum svörum hvað eftir annað um það að menn skyldu ekki svara svona „hypotetiskum“ spurningum, eins og hv. þingmaður orðaði það; menn svöruðu ekki spurningum um afstöðu til frumvarpa fyrir fram (ÖS: Þetta var Margrét Thatcher.) — og vitnaði þar í Margréti Thatcher. Hvort sem menn hafa orð Margrétar Thatcher fyrir því eða hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þá held ég að þetta sé skynsamleg stefna. Ég mun reyna að tileinka mér hana og ekki svara spurningum um afstöðu mína til tiltekinna frumvarpa fyrr en við umræðu um frumvörpin og svo að sjálfsögðu við atkvæðagreiðslu.

Ég hyggst einmitt fylgjast vel með umræðu um það frumvarp sem hv. þingmaður spurði út í. Ég hlakka til dæmis sérstaklega til að heyra mat þingmanna Pírata á því vegna þess að þeir hafa verið óþreytandi við að tala fyrir stjórnarskrárbreytingum. Að minnsta kosti einn þingmanna þeirra, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, hafði þó verulegar efasemdir um að þetta frumvarp væri til þess fallið að liðka fyrir breytingum á stjórnarskrá, að það væri til bóta. Ég mun ekki bara fylgjast með afstöðu Pírata til þessa máls en mér finnst innlegg þeirra í þetta mál, eins og mörg önnur, vera fróðlegt og veita nýja sýn, sýn sem hefur kannski vantað í hefðbundnu stjórnmálaflokkana í sumum tilvikum. Ég mun því fylgjast með afstöðu þeirra og annarra og taka síðan afstöðu til málsins í framhaldi af því.