142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[13:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Fyrir utan þá staðreynd sem kom fram hér, að hæstv. forsætisráðherra lýtur leiðsögn Margrétar Thatcher og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, (Gripið fram í.) — sem eru auðvitað áhugaverðar upplýsingar fyrir þingheim, vænti ég — þá kaus hann samt að svara nánast engum þeim spurningum sem ég lagði fram sem snerust ekki eingöngu um afstöðu hæstv. forsætisráðherra til þess frumvarps sem hefur verið dreift hér heldur um það hvort hann hyggist sem formaður annars stjórnarflokksins og þess meiri hluta sem er í þinginu greiða götu málsins þannig að það fái að koma til atkvæða. Og hins vegar hvernig hæstv. forsætisráðherra — og þetta er mjög eðlileg spurning, í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu, til hæstv. forsætisráðherra — sér fyrir sér vinnu við stjórnarskrárbreytingar á því kjörtímabili sem nú er að hefjast. Hér er um stórmál að ræða og það hlýtur að vera eðlilegt þar sem ekki er bara um einstakt frumvarp að ræða að við fáum að vita hver afstaða hæstv. forsætisráðherra er til þess og hvernig hann sér fyrir sér þá vinnu. Ég trúi ekki öðru en hæstv. forsætisráðherra hafi mótaða skoðun á því máli.