142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

aðildarviðræður við ESB.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Herra forseti. Sem kunnugt er ákvað Alþingi í upphafi síðasta kjörtímabils í atkvæðagreiðslu að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þær viðræður hafa gengið ágætlega síðan þá og mikilli vinnu verið varið í þetta verkefni. Margvíslegar ástæður voru og eru fyrir þessari umsókn — efnahagslegar ástæður, líka lýðræðislegar. Við erum að stórum hluta þátttakendur í Evrópusambandinu en höfum ekki aðkomu að ákvarðanatöku þar nema með því að gerast fullir aðilar. Margvíslegar ástæður eru því raktar í þingsályktun sem fylgdi þessari ákvörðun.

Nú bregður svo við að ekki er alveg ljóst hvort haldið verði áfram þessum viðræðum. Mér er svo sem kunn andstaða ríkisstjórnarflokkanna við aðild að ESB og ég vildi gjarnan vilja eiga ítarlegan orðastað einhvern tímann við utanríkisráðherra um ástæður þeirrar andúðar.

Ég boðaði í ræðu í gær fyrir hönd þingflokks Bjartrar framtíðar þingsályktunartillögu um að farið verði í atkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna, þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda skuli áfram viðræðunum. (Gripið fram í.) Björt framtíð hefur verið eindregið þeirrar skoðunar að ljúka beri viðræðunum og láta atkvæðagreiðslu um samninginn nægja sem þjóðaratkvæðagreiðslu, þá liggi allar upplýsingar fyrir, en úr því sem komið er, þegar ríkisstjórnin boðar einhvers konar hlé, óskilgreint, en hefur þó talað að mínu viti í véfréttarstíl um hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið, þá finnst mér ástæða til að leggja fram slíka tillögu. Ég boðaði hana í gær og fagna því út af fyrir sig að þingflokkur Samfylkingarinnar hefur orðið fyrri til og lagt fram slíka tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna, það er sama hvaðan gott kemur.

Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Í ljósi fyrri yfirlýsinga beggja stjórnarflokka um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, má þá ekki vænta stuðnings ríkisstjórnarinnar við það að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, t.d. samhliða næstkomandi sveitarstjórnarkosningum?