142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

aðildarviðræður við ESB.

[13:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því mjög að hv. þingmaður er vel lesinn í stefnumálum ríkisstjórnarflokkanna. Það er mjög mikilvægt að stjórnarandstaðan sé vel að sér á hverjum tíma í því sem ríkisstjórnin hefur sett fram og ætlar sér að stefna að. Þar af leiðandi held ég að hv. þingmaður sé vel upplýstur um að það verður illa haldið áfram, eiginlega bara alls ekki, viðræðum við Evrópusambandið undir stjórn þess utanríkisráðherra sem hér stendur.

Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að ræða við fulltrúa Evrópusambandsins um framtíðina, um stefnu ríkisstjórnarinnar. Við erum vissulega búin að vera að ræða við þessa aðila í fjögur ár. Það er búið að eyða miklum tíma í þetta, mikilli orku og miklum fjármunum af hálfu beggja aðila. Þar af leiðandi er einfaldlega kurteisi að taka við þá samtal um framtíðina á þessum vettvangi.

Það er alveg skýrt að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að það eigi að gera hlé á viðræðunum. Það þýðir að gert verður hlé og alvöruhlé. Það þýðir að menn munu ekki halda áfram viðræðunum sem nú hafa tekið mjög (Forseti hringir.) langan tíma miðað við þær forsendur sem lagt var af stað með. Ég held að öllum sé það ljóst. Það hefur komið fram í fjölmiðlum og annars staðar.