142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör. Þau eru gagnleg svo langt sem þau ná. Ég skil það þannig að hæstv. ráðherra hyggist leita til sérstakra fræðimanna eða stofnana, innlendra eða erlendra, til að vinna þessa úttekt. Ég legg hins vegar mikla áherslu á, eins og gert var á liðnu kjörtímabili, að mikið samráð verði milli stjórnmálaflokkanna um allt er lýtur að tengslum okkar við Evrópusambandið og viðræðunum. Þau mál voru ítrekað tekin til umfjöllunar á vettvangi hv. utanríkismálanefndar. Ráðherra kom þar reglubundið og þingmenn allra flokka sem þar áttu sæti áttu aðkomu að því og gátu spurt starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra út í einstaka liði og þætti í þeirri vinnu.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra, sem hann komst ekki yfir að svara á stuttum tíma hér áðan, þ.e. hvort ráðherrann hyggist koma fyrir utanríkismálanefnd á þessu þingi og gera nefndinni nánar grein fyrir áformum sínum í þessu efni. Ég spyr líka hvort utanríkismálanefnd muni eiga einhverja hlutdeild í þeirri vinnu þó það sé ekki með beinum hætti í samræmi við 24. gr. þingskapalaga — og með hvaða hætti?