142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að í meiri háttar utanríkismálum og slíku mun utanríkisráðherra upplýsa utanríkismálanefnd og vera í nánu samstarfi við hana. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að nefndin sem slík komi að þeirri vinnu sem ég lýsti áðan, en að sjálfsögðu er sjálfsagt að koma hvenær sem er og ræða við utanríkismálanefnd um þetta sem og öll önnur utanríkismál. Hv. þingmaður spurði hér áðan um hlutverk utanríkismálanefndar. Ég er að reyna að svara því með þessu svari.

Mig langar hins vegar aðeins að nefna það hér að þegar talað er um mikið samráð er það rétt að utanríkismálanefnd var vel upplýst um gang viðræðna og þess háttar, en pólitískt samráð við utanríkismálanefnd var með öðrum hætti en hér er kannski gefið til kynna. Það var alla vega ekki þannig að stjórnarandstaðan ætti mikla aðkomu að þeim viðræðum eða öðru slíku sem fór fram um aðild að Evrópusambandinu, pólitískt samráð átti sér fyrst og fremst stað í formi upplýsingafunda í utanríkismálanefnd.