142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það blasir við að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra hvaða mótvægisaðgerðir hann hyggst koma með ef markmiðið hjá þessari ríkisstjórn er enn þá að ná hallalausum fjárlögum. Það ber nýrra við að hingað komi fjármálaráðherra inn með kostnaðarumsögn eins og þá sem fylgir þessu frumvarpi og er satt að segja söguleg rassskelling á frumvarp frá fjármálaráðherra þar sem sagt er ósköp einfaldlega að afkoman muni versna og framgangur markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum muni tefjast og að það verði flóknara að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs.

Þegar horft er á það í samhengi við aðrar yfirlýsingar hæstv. ráðherra, sem fela í sér að hann vilji fara í frekari skattalækkanir og við höfum ekki fengið að heyra neitt um mótvægisaðgerðir blasir við spurningin: Hvenær ætlar fjármálaráðherra að virða þingið þess að koma þá með útskýringar á því hvernig á að ná jöfnuði í ríkisfjármálum? Eða skiptir það engu máli fyrir hæstv. fjármálaráðherra?