142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikið rétt hjá hv. þingmanni að það skiptir máli að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Það var í orði kveðnu markmið fráfarandi ríkisstjórnar en eftir situr vandi upp á í kringum 30 milljarða eins og það blasir við mér á yfirstandandi ári, árinu þar sem átti að ná því sem næst heildarjöfnuði.

Það vekur upp spurningar um það hvað við getum gert til að bregðast við. Hér leggjum við til að skattur sem við teljum að sé ósanngjarn verði felldur niður, það sé rétt að draga hann til baka. Sú spurning vaknar auðvitað upp, í ljósi miklu verri afkomu ríkissjóðs en að var stefnt, hvort öll þau útgjaldaáform sem fyrri ríkisstjórn kynnti til sögunnar seint á síðasta ári og í upphafi þessa árs séu ekki um sig sjálf fallin. Ég segi fyrir mitt leyti að þau hljóta að koma til endurskoðunar, þar með talið fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem svo var nefnd.