142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:13]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja þetta. Eru það þá Norðfjarðargöng sem á að slá af, eru það Dýrafjarðargöng sem á að slá af? Hvað er það sem hæstv. fjármálaráðherra ætlar að skera niður?

Hann kveinkar sér undan 30 milljarða gati og eykur á það alla daga, eykur sjálfur á það alla daga. Og hér kemur hann með tillögu um að draga til baka skattlagningu. Það eru vissulega kannski rök fyrir því að draga til baka þessa skattlagningu, en ef hún kemur til framkvæmda mun hún skila á heilu ári einum og hálfum milljarði. Það alla vega dugar til þess að afnema skerðingar á grunnlífeyri.

Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Það verður ekki bæði lofað miklum útgjöldum og lækkaðir skattar og ekki komið með neina heildstæða sýn um það hvernig á að tryggja efnahagslegt öryggi þjóðarinnar vegna þess að hallalaus rekstur á ríkissjóði er grundvallarforsenda agaðrar efnahagsstefnu og árangurs í afnámi hafta. Það virðist vera þannig að þessi ríkisstjórn hafi engan áhuga á öðru en að láta bara fljóta sofandi að feigðarósi.