142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Okkur í Samfylkingunni liggur mikið á núna enda vitum við að 1,5 milljarðar árlega eru ekki tíndir af trjánum.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hvernig hann hyggist í framhaldinu meðhöndla þá skattlagningu í ferðaþjónustu því að hlutur ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu hér á landi er ríflega 5% samanborið við Norðurlönd, Bretland og Þýskaland þar sem hann er um 2% af vergri landsframleiðslu. Ef við lítum til Frakklands er hann 4% af vergri landsframleiðslu þar þannig að ferðaþjónusta er gríðarlega stór atvinnugrein á Íslandi og hún er vaxandi, eins og ráðherra fór yfir í ræðu sinni.

Hér á landi er heildarskatthlutfall fyrirtækja í ferðaþjónustu um 25% á meðan heildarskatthlutfall í þessari atvinnugrein hjá þeim þjóðum sem ég las upp áðan er 33–40%. Hér er ferðaþjónusta því umtalsvert stærri atvinnugrein á umtalsvert lægri sköttum. Ég velti því fyrir mér (Forseti hringir.) hvort það sé stefna núverandi ríkisstjórnar að skattleggja ekki berandi (Forseti hringir.) atvinnugreinar hér sambærilega og önnur ríki.