142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mjög stuttu máli. Skattkerfi fyrir ferðaþjónustuna þarf að vera sanngjarnt. Skatturinn sem við erum að ræða hér í dag er greiddur af þeim sem koma til landsins og kaupa gistináttaþjónustu. Ef hann er hækkaður hækkar reikningurinn til þeirra sem koma til Íslands. Þess vegna er þetta hluti af samkeppnisumhverfi þeirra sem veita þjónustuna. (Gripið fram í: Hver …?) Við erum í samkeppni við marga aðra valkosti þegar kemur að því að ferðast um heiminn. Viljum við í raun og veru fjölga ferðamönnum sem koma til Íslands þurfum við að gæta að samkeppnisumhverfinu. Við þurfum líka að spyrja okkur: Hvað getum við gert til þess að bæta aðstöðu ferðaþjónustuaðila á Íslandi þannig að fjárfestingin sem hér er vikið að komi fram? Hún hefur verið ófullnægjandi. Það skorti sérstaklega á að hún komi fram þar sem við getum laðað til landsins verðmætari ef svo mætti að orði komast ferðamenn, þá sem skilja meira eftir sig fyrir hvern dag. Ég hef þegar vikið að því hvar það mætti helst (Forseti hringir.) verða.