142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármálaráðherra lýsti í ræðu sinni úr þessum ræðustól í gær og aftur hér áðan að ríkissjóður væri í miklum vanda, enn meiri vanda en fráfarandi ríkisstjórn hefði látið uppi. Það fullyrðir hæstv. ráðherra um leið og hann boðar skattafslátt og skattalækkanir.

Fyrsta mál nýrrar hæstv. ríkisstjórnar er að leggja það til að virðisaukaskattur á hótel- og gistiþjónustu verði áfram með sömu undanþágu og virðisaukaskattur á matvæli. Það er fyrsta forgangsmál að halda neyslusköttum, sem greiddir eru að mestu af erlendum ferðamönnum með sömu undanþágu og íslenskur almenningur fær vegna kaupa á nauðsynjavörum. Þetta leggur hæstv. fjármálaráðherra til þó að breytingin hafi augljóslega í för með sér lægri tekjur fyrir ríkissjóð sem allir vita að er í viðkvæmri stöðu og því hefur hæstv. ráðherra sjálfur lýst.

Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir tekjutapi upp á 500 milljónir í ár, eins og fram hefur komið, og síðan árlega 1.500 milljónir miðað við óbreytta fjölgun gistirýma. En eins og fram hefur komið í fréttum undanfarið er gert ráð fyrir byggingu hótela víða um land til að mæta gífurlegri fjölgun ferðamanna þannig að tekjutapið er sennilega vanmetið ef eingöngu er horft á leigu hótelherbergja.

Virðulegi forseti. Eftir hrun efnahags og samfélags haustið 2008 var ljóst að mikill kostnaður hafði fallið á ríkissjóð og tekjustofnar hans höfðu veikst verulega. Við vorum reyndar á barmi gjaldþrots og grípa þurfti til róttækra aðgerða til að forða velferðarkerfinu frá óbærilegu tjóni og ríkissjóði frá óviðráðanlegri skuldasöfnun. Ásamt breytingum á skattkerfi var bæði rekstur stjórnsýslustofnana dreginn saman og velferðarþjónustan skorin niður. Margar sársaukafullar ákvarðanir voru teknar hvað það varðaði sem kom niður á fólkinu í landinu, þeim sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda þó að hagur þeirra sem verst eru settir hafi verið varinn. Öllum steinum var velt við í þessari fordæmalausu stöðu og þar var virðisaukaskatturinn ekki undanþeginn.

Ein af stóru aðgerðunum sem gripið var til var að hækka almenna skattþrepið í 25,5%. Undanþágu vegna matvæla í lægra skattþrepi eða 7% var haldið óbreyttri og einnig var ákveðið að hlífa öllum liðum ferðaþjónustunnar við skattahækkunum í ljósi þeirrar óvissu sem ríkti um stöðu hennar á heimsvísu eftir að kreppan hófst. Sú óvissa var framlengd með gosinu í Eyjafjallajökli árið 2010 og aftur með gosinu í Grímsvötnum árið 2011.

Nú hefur framgangur greinarinnar hins vegar sýnt að óvissan er að baki og ekki er rík ástæða til að hótelþjónusta njóti sömu undanþágu frá almennu virðisaukaskattsþrepi og matvæli og nauðsynjavörur til almennings. Þegar ríkisbúskapurinn er í þeirri stöðu sem kunnug er með vanda af þeirri stærðargráðu sem hagstjórnarmistök fyrri ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komu honum í er útilokað annað en að endurmeta alla tekjustofna og útgjöld. Þegar hagur vænkast hins vegar og hægt er að gefa til baka kemur forgangsröðun stjórnvalda í ljós.

Núverandi hæstv. ríkisstjórn sýnir forgangsröðunina með skýrum hætti þegar allra fyrsta mál hennar er að draga til baka fyrirhugaða hækkun á neysluskatti sem erlendir ferðamenn greiða að mestu. Það er gert jafnvel þó að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað gríðarlega hér á landi og langt umfram bjartsýnustu spár. Það er fjölgun sem skapar mörg kostnaðarsöm vandamál sem ekki er búið að leysa. Í því ljósi mætti draga þá ályktun að staða ríkissjóðs væri afskaplega góð og þá hljóti næsta mál að vera frekari breytingar svo sem í formi aukinna framlaga til heilbrigðisstofnana, menntastofnana og til að bæta almannatryggingarnar. En svo er ekki.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur lýst slæmri stöðu ríkissjóðs og rætt skynsamlega stjórn ríkisfjármála. Samt er það allra fyrsta mál hans að afnema fyrirhugaðar hækkanir á þjónustu hótela og tryggja þeim sem hana kaupa áframhaldandi afslátt. Er það skynsamleg ráðstöfun í ríkisfjármálum eða forgangsröðun sem leiðir til bættrar stöðu almennings í landinu? Nei, það get ég ekki séð. Við erum nefnilega í þeirri stöðu að þurfa nauðsynlega á tekjunum að halda.

Hvaða heilbrigðisstofnun þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur þörfum sjúkra og aldraðra? Hvaða framhaldsskóli landsins þarf ekki á frekari fjármunum að halda til að mæta betur þörfum nemenda sinna og starfsfólks? Í mínum huga ætti við batnandi efnahag frekar að gefa þessum stofnunum til baka en að draga hækkun virðisaukaskatts á hótelþjónustu til baka.

Áður en tekin var endanleg ákvörðun um gerð tillögu um hækkun á virðisaukaskatti á hótel- og gistiþjónustu á sínum tíma var gerð ítarleg greining á áhrifum þess á ríkissjóð, hótel og gistiheimili og ferðaþjónustuna í heild. Vinna í þá veru var unnin í ráðuneytum en einnig gerði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að beiðni fjármálaráðuneytisins skýrslu um áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu. Þá skýrslu má finna á vef stofnunarinnar og er í henni ýmis fróðleikur sem hv. þingmenn ættu að kynna sér áður en við göngum til atkvæða um þetta mál.

Útleiga hótel- og gistiherbergja og önnur gistiþjónusta var í upphafi virðisaukaskattskerfisins undanþegin virðisaukaskatti. Þann 1. janúar 1994 var lögum um virðisaukaskatt breytt og við breytinguna bar þessi þjónusta 14% virðisaukaskatt eða sömu prósentu og taka á gildi 1. september nk.

Í desember 2006 voru lög samþykkt á Alþingi um lækkun neðra þreps virðisaukaskatts úr 14% í 7% frá og með 1. mars 2007. Tilgangurinn var fyrst og fremst að lækka verð á matvöru en hótel- og gistiþjónustan fylgdi með. Þar með var munurinn á efra og neðra þrepi mun meiri en áður eða 17,5% og svo við hækkun efra þrepsins er munurinn orðinn 18,5%. Hótelin selja þjónustu sem ber 7% virðisaukaskatt en kaupa þjónustu sem ber oftast 25,5% virðisaukaskatt og fá mismuninn endurgreiddan úr ríkissjóði. Fram að breytingunni 2007 hafði munurinn á inn- og útskatti verið jákvæður þannig að virðisaukaskatturinn skilaði tekjum í ríkissjóð, en eftir að hótel- og gistiþjónustan var færð í 7% virðisaukaskatt varð munurinn neikvæður. Þannig hefur ríkissjóður greitt til hótela og gistiheimila umtalsverðar upphæðir ár hvert frá árinu 2007 og mun halda áfram að gera ef frumvarp það sem hæstv. fjármálaráðherra lætur verða sitt fyrsta verk að mæla fyrir verður að lögum.

Lækkun á virðisaukaskattinum í 7% árið 2007 hafði aðeins lítil áhrif á verð þjónustunnar og í stuttan tíma. Hótelin héldu að mestu leyti eftir virðisaukaskattshækkuninni og má því með nokkrum sanni líta á lækkunina sem niðurgreiðslu eða styrk til atvinnugreinarinnar, segir í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Ekkert er athugavert við að sprotagreinum í uppvexti sé ívilnað og er það gert með ýmsum hætti í gegnum styrkja- og skattkerfið. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að styrkja jafn fyrirferðarmikla atvinnugrein og ferðaþjónustan er nú orðin í íslensku samfélagi. Í greiningum sem miða við virðisaukaskatt í almennu þrepi, þ.e. 25,5% en ekki 14% eins og lögin gera ráð fyrir, sést að ferðamönnum mun halda áfram að fjölga þrátt fyrir hækkun, þó að hugsanlega gæti hægt á þeirri fjölgun, en það er hins vegar ekki víst vegna þess að erlendar mælingar sýna að hótelþjónusta sé tiltölulega lítið næm fyrir verðbreytingum. Hún er aðeins rétt rúm 10% af þeim kostnaði sem erlendir ferðamenn leggja út vegna heimsóknar sinnar til landsins.

Við mat og samanburð á áhrifum breytingar neysluskatta á samkeppnisstöðu og afkomu hótela og gistiheimila þarf að skoða fleira í rekstrarumhverfinu, svo sem skatta á fyrirtæki. Í yfirliti Hagfræðistofnunar yfir skatt á gistingu í ýmsum löndum kemur fram að tekjuskattur á fyrirtæki er undir meðallagi hér á landi og það eru skattar á arðgreiðslur líka, jafnframt heildarskatthlutfall fyrir fyrirtæki sem og heild og skatthlutfall fyrir eigendur.

Hlutdeild ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu er helmingi meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og er það umhugsunarefni þegar aðbúnaður og umhverfi helstu ferðamannastaða okkar eru höfð í huga. Undanþágur og ívilnanir eru því ekki eins sjálfsagðar hér á landi. Við stefnumótun fyrir ferðamannaiðnaðinn í heild þurfa stjórnvöld að huga að tekjum samfélagsins af greininni en ekki horfa eingöngu á fjölda ferðamanna.

Virðulegi forseti. Við mat á því hvort taka eigi fyrirhugaða hækkun til baka þarf að huga að því að samhliða fjölgun ferðamanna hefur kostnaður samfélagsins aukist sem og þörf fyrir úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum, vegakerfinu og öðrum innviðum. Kostnaður sem fylgir fjölda ferðamanna við helstu náttúruperlur er augljós og einnig aukið álag á vegakerfið. Annar kostnaður samfélagsins fylgir einnig þó að gjaldeyristekjur af ferðamönnum séu umtalsverðar. Í því sambandi má nefna að í fyrra fór þyrla Landhelgisgæslunnar í fyrsta sinn oftar til að sinna erlendum ferðamönnum en til annarra erinda. Nýlega var í fréttum fjallað um álag á björgunarsveitirnar okkar vegna erlendra ferðamanna í vanda.

Í þröngri stöðu valdi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að leggja til hækkun á virðisaukaskatti á hótel frekar en að skera enn niður til velferðarþjónustu eða draga úr styrkjum til nýsköpunar eða að draga úr styrkjum sem gagnast gætu t.d. við markaðssetningu vetrarferðamennsku. Sú tillaga byggði á góðum gögnum og þeirri staðreynd að greininni hefur vaxið fiskur um hrygg og ekki er nauðsynlegt að ívilna henni sérstaklega. Hækkunin hefur einnig þann ótvíræða kost að hún hefur óveruleg áhrif á kjör íslensks almennings og vísitölu neysluverðs.

Við vinnu málsins í þingnefnd verða væntanlega allar hliðar skoðaðar vel og ég vænti þess einnig að forgangsröðun málaflokka verði vandlega metin þegar aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna efnahagsvandans verða afturkallaðar. Ég tel þá forgangsröðun ranga sem hæstv. fjármálaráðherra kynnir hér og er forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar, þegar hæstv. ráðherra raðar hér fremst lækkun á virðisaukaskatti á hótelþjónustu í því árferði sem sú þjónusta býr við með gríðarlegri fjölgun ferðamanna, en hefur ekki í hyggju að draga til baka niðurskurð í velferðarþjónustu eða til menntastofnana.