142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann bendir á að það á ekki að ræða um virðisaukaskatt sem skatt á ferðaþjónustuna. Virðisaukaskatturinn er neysluskattur. Hann er greiddur af þeim sem nýta sér þjónustuna.

Langflestir þeirra sem nýta sér hótel- og gistiþjónustu á Íslandi eru erlendir ferðamenn. Þegar við horfum yfir skatta og tökum heildarskattstöðuna, heildarrekstrarumhverfið sem ferðaþjónustan býr við á Íslandi, er samkeppnisstaðan góð — jafnvel þó við mundum hækka virðisaukaskattinn og jafnvel þó við færum með hann upp í almennt þrep. Það er vel. En við verðum að horfa á heildarstöðuna, heildarpakkann, þegar við metum þetta.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að með lögum sé búið að setja hótel- og gistiþjónustu í 7% þrep og það sé enginn sérstakur afsláttur. Allar þær vörur og öll sú þjónusta sem er í 7% þrepinu er þar af sérstakri ástæðu. Ástæða var talin til að ívilna sérstaklega til að hjálpa ferðaþjónustuaðilum, hótel- og gistiþjónustuaðilum, í vexti á meðan greinin var að vaxa. Það finnst mér mjög skynsamlegt. En greinin hefur slitið barnsskónum.

Hérna eru ferðamenn svo margir að komið hafa upp stórkostleg vandamál sem við þurfum að glíma við. Þau eru mörg hver kostnaðarsöm. Þau varða mörg hver okkar fegurstu náttúruperlur. Við þurfum að taka á þeim málum. Við eigum að láta (Forseti hringir.) greinina, sem búin er að slíta barnsskónum, (Forseti hringir.) standa á eigin fótum.