142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig rétt að ástæða er fyrir því að sum þjónusta er í neðra virðisaukaskattsþrepinu og sumar vörur, en það heitir ekki að starfa á undanþágu. Það heitir að starfa á grundvelli almennu lagareglunnar sem gildir fyrir viðkomandi vörur eða þjónustu. Þess vegna vil ég ekki nálgast þetta þannig að við séum að færa þetta úr einhverju undanþáguþrepi þó að gerðar verði breytingar á einstökum vöru- eða þjónustuliðum í þessu tilliti.

Mér finnst hins vegar ágætt að hv. þingmaður setur hlutina í þetta sögulega samhengi, þá getum við haft það til hliðsjónar hvort sú stefna að lækka virðisaukaskattsþrepið á þessa þjónustu hafi skilað árangri eða ekki. Tölurnar bera það með sér að þetta hefur skilað árangri, að minnsta kosti að því marki sem þetta hefur liðkað fyrir og styrkt samkeppnisstöðu þeirra sem veita þjónustuna á Íslandi í dag. Ásamt með veikara gengi er alveg öruggt að þetta hefur hjálpað til. Svo er alltaf matsatriði hvort menn telja á einhverjum tímapunkti kominn tíma til að hækka skattinn á þessa þjónustu. Ég tel að sá tími sé ekki runninn upp.

Ef við ætlum að taka með í reikninginn ágang vegna aukins fjölda ferðamanna við ýmsar náttúruperlur landsins, eru margar aðrar leiðir en að hækka virðisaukaskatt til að sækja eða styrkja tekjustofn til að bregðast sérstaklega við því.