142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni þegar hann talar um að betra sé að hafa kerfið einfaldara en flókið. Þegar tillagan kom fyrst fram var gert ráð fyrir að virðisaukaskatturinn færi bara í almennt þrep, 25,5%, og ekki yrði búið til sérstakt þrep fyrir þessa þjónustu. Í meðförum nefnda og til þess að taka tillit til þjónustunnar sjálfrar var hins vegar ákveðið að fara þessa leið, sem ég hef litið á sem millileið en er hvenær sem er tilbúin að ræða einföldun á virðisaukaskattskerfinu og hvað það gæti leitt af sér.

Í sjálfu sér mætti segja að betra væri að hafa bara engan skatt á hótel- og gistiþjónustu. Þá þyrftum við ekki að greiða muninn á inn- og útskatti. Það væri ódýrara fyrir íslenska ríkið en að hafa þjónustuna í 7% og greiða úr ríkissjóði til hennar mismun á innskatti og útskatti í hundruðum milljóna á hverju ári.

Eins og kom fram hjá mér áðan, og ef hv. þingmaður les skýrslu Hagfræðistofnunar Háskólans, þá sést það svo greinilega á þeim gögnum sem þar koma fram að virðisaukaskatturinn, hvort sem hann er enginn, 14% eða 7%, hefur engin áhrif. Fjölgun ferðamanna hefur að meðaltali verið 7% síðastliðin 20 ár, enn meiri samt síðastliðin tvö ár. Það virðist sem virðisaukaskatturinn hafi ekki áhrif á fjöldann.

Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að það skipti máli úti á landi hvort þar eru fáir eða margir ferðamenn. Auðvitað gerir það það. (Forseti hringir.)